135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[17:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því ef samstaða getur náðst um það á hv. Alþingi að svipta hulunni af leynd í orkusölusamningum til stóriðju. Hvort sem það verður við það tilefni sem hér er að opna raforkulögin eða annað, skal ekki standa á mér eða öðrum þingmönnum Vinstri grænna í þeim efnum.

Það er auðvitað miður að í þessu svokallaða samkeppnisumhverfi í raforkunni skuli ekkert af þessum svokölluðu samkeppnisfyrirtækjum sem framleiða raforku í landinu vera tilbúið til að bjóða í stærri einingum raforku til svo stórra notenda eins og hér hafa verið nefndir. Ég nefndi sérstaklega ylræktina sem á Suðurlandi má segja að sé ofan á virkjunum, þar liggja saman lendur virkjananna annars vegar og ylrækarinnar hins vegar, þannig að ekki þarf langar línur þar á milli en vissulega þarf að spenna orkuna niður.

Ég tel mjög mikilvægt að núna þegar verið er að lækka það mark sem þarf til að kallast stórnotandi þá verði þessi munur á flutningnum líka minnkaður. Ég held að það sé óviðunandi að hann sé svo mikill sem hér hefur komið upp.