135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[19:38]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég flyt það frumvarp sem hér er til umræðu ásamt öðrum þingmönnum Frjálslynda flokksins og efnisatriði þess eru í samræmi við þá stefnu sem Frjálslyndi flokkurinn markaði sér fyrir margt löngu og við höfðum sem eitt helsta baráttumál fyrir síðustu kosningar. Þetta er liður í því sem ég hef kallað að lagfæra velferðarhallann í íslensku þjóðfélagi, velferðarhalla sem hefur myndast vegna þess að stjórnvöld, ríkisstjórnir undanfarinna ára, hafa ekki gætt þess að haga m.a. skattamálum þannig að kæmi til hagsbóta eða alla vega væri jöfnuður milli þeirra sem verst hafa kjörin, sem lægst hafa launin og hinna sem hafa það best.

Viðmiðun stjórnvalda hefur aðallega miðast við að lækka skatta á fyrirtæki og fjármagnseigendur. Vel kann að vera að það hafi gefið góða raun en þó er þannig komið að við erum með lægsta fjármagnstekjuskatt í norðanverðri Evrópu. Á það hefur verið bent af ýmsum talsmönnum þess kerfis að hafa lága skatta hvað það varðar að skattar af fjármagnstekjum hafi þrátt fyrir lækkunina skilað meiru í ríkissjóð. Tölur sýna að svo er.

En á sama tíma og þeir sem tala um að hafa sem lægstan fjármagnstekjuskatt og lægsta skatta á fyrirtækjum og gæta þess að þeir auðugustu, 5 prósentin í þjóðfélaginu, njóti hvað mestra hagsbóta, hefur jafnan verið skellt skollaeyrum við og mælt á móti og hamast gegn því að skattleysismörk hækkuðu í samræmi við launaþróun í landinu. Vegna þessa hefur myndast ójöfnuður sem bent hefur verið á af mörgum aðilum. Meðal annars hefur Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, fjallað um þetta og bent á hvernig kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu hafa orðið lakari einmitt vegna þess að menn hafa ekki gætt þess að haga skattamálum á þann veg að hækka skattleysismörk í samræmi við breytingar sem hafa orðið á verðlagi og launaþróun.

Vegna þessa hefur myndast velferðarhalli. Þeir sem verst eru settir, þeir sem hafa minnst fyrir sig að leggja eru hlutfallslega skattlagðir mest. Við erum með hæstu óbeinu skattana eða neysluskattana sem þekkjast á öllu OECD-svæðinu eins og dregið hefur verið fram á undanförnum dögum. Með sama hætti skattleggjum við líka fólk sem hefur ekki einu sinni tekjur sem duga til framfærslu. Við tökum skatt af fólki sem fær örorkubætur og ellilífeyri. Hvers konar meðferð á opinberum málum er það eiginlega í þjóðfélagi þar sem ráðamenn þjóðarinnar guma af því á tyllidögum að við séum ríkasta þjóðfélag heims? Væri ekki full ástæða, væri ekki eðlilegt siðferði að miða þá við að rétta eitthvað til okkar minnstu bræðra og systra? Væri ekki eðlilegt að láta fólk sem hefur minnst fyrir sig að leggja njóta að einhverju leyti þess sem það fær greitt þannig að það geti lifað með viðunandi hætti?

Þá bregður svo við að fjármálaráðherra sem nú situr segir og forverar hans hafa jafnan sagt: Það kostar svo mikið að hækka skattleysismörkin. Það sem þið frjálslynd eruð að leggja til með því að tekjur manna upp að 150 þús. kr. verði skattfrjálsar kostar svo mikið, það er svo dýrt fyrir þjóðfélagið, þjóðfélagið missir af svo miklum skatttekjum. Síðan koma reiknimeistararnir og finna það út að þetta kosti marga milljarða en reikna ekki með hvað kemur á móti ef skattleysismörkin yrðu hækkuð með þeim hætti sem við leggjum hér til.

Í fyrsta lagi á það sama við varðandi skattalækkun á launþegum og skattalækkanir almennt. Eins og talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa iðulega bent á — og ég er þeim sammála — hefur skattalækkun, m.a. hvað varðar fjármagnstekjuskatt, skilað auknum tekjum og það sama á við og það eru ekki nokkur rök sem mæla gegn því eða ættu að vera andstæð því hvað varðar lækkun skatta á þeim sem verst eru settir. Hvert mundu þeir fjármunir sem fólkið fengi þá í sinn vasa og hefði til sjálfstæðrar ráðstöfunar renna? Þeir mundu aðallega renna til neyslu vegna þess að tekjurnar eru ekki það miklar að þetta er eingöngu spurning um að fólk geti veitt sér örlítið meira. Þar sem hæstu neysluskattarnir eru, eins og rakið hefur verið, þar koma þessar greiðslur til baka.

Með sama hætti og menn leysa úr læðingi öfl þegar skattar á fjármagnstekjur eru lækkaðir, þegar skattar á fyrirtæki eru lækkaðir, þá leysast líka úr læðingi öfl þegar bótaþegar geta unnið og fengið bæturnar sínar minna skertar en ella, hafa möguleika á að afla sér tekna án þess að það sé allt meira og minna rifið af þeim eins og nú háttar í skattkerfi okkar. Í dag er það þannig að skattarnir leggjast þyngst á launafólk á Íslandi og bótaþega og það hefur orðið til þess að myndast hefur velferðarhalli þar sem þeir verst settu í þjóðfélaginu hafa farið mun neðar og valdið því að ójöfnuður hefur orðið meiri í þjóðfélaginu en ella hefði orðið.

Ég er þeirrar skoðunar að við höfum farið algjörlega rangt að í skattamálum. Við höfum ekki gætt þess að þeir beri byrðarnar sem hafa nóg fyrir sig að leggja. Við erum í raun með hlutfallslega lægstu skattana á þeim sem hæstar hafa tekjurnar á sama tíma og við erum með hlutfallslega hæstu skattana á þeim sem minnstar hafa tekjurnar.

Í árdaga þegar menn veltu fyrir sér með hvaða hætti og hvernig skattkerfið skyldi vera er alveg ljóst að það var miðað við eignir. Til forna var miðað við annars vegar eignarskatta og hins vegar nefskatta. Fyrirbrigðið tekjuskattur varð ekki til fyrr en á seinni hluta 19. aldar og ef ég rifja það upp eftir minni þá minnir mig að það hafi verið þáverandi fjármálaráðherra Frjálslynda flokksins í Bretlandi, Galdstone, sem kom með það að nauðsynlegt væri að leggja á að hans mati svívirðilegan skatt sem ætti í raun ekki að leggja á, þ.e. á tekjur fólks. Hann lofaði því að hann mundi aldrei framar leggja það til að tekjuskattur yrði lagður á fólk vegna þess að þetta væri svo óréttlátur skattur. Hann stóð við orð sín en sat hins vegar í ríkisstjórn þar sem tekjuskatturinn var lagður til áfram og þessi óréttláta skattheimta, eins og fyrsti fjármálaráðherrann sem bar þennan skatt fram kallaði hana, hefur haldist æ síðan. Á þeim tíma þótti eðlilegt að þeir sem ættu eignir greiddu til þjóðfélagsins en hinir sem ættu ekki eignir og hefðu minna fyrir sig að leggja en þyrftu að afla sér lífsviðurværis í sveita síns andlitis væru skattlausir nema tekjuöflun þeirra leiddi til eignamyndunar.

Nú hefur orðið algjör umbylting hvað þessa hugsun varðar. Um árabil hefur því verið haldið fram að eignarskattar væru óréttlátir skattar og þannig hefur skattkerfið þróast að dregið hefur úr þeim en að sama skapi hafa skattar á launþega orðið æ þyngri og skattar á neytendur æ þyngri. Með aðflutningsgjöldum, vörugjöldum og virðisaukaskatti er verið að skattleggja margskattlagðar krónur, þannig að af hverjum hundrað krónum sem launþegi vinnur sér inn og þegar hann er búinn að eyða þeim til vörukaupa þá situr í raun þegar upp er staðið ekki svo mikið eftir, ríkisvaldið hefur tekið meiri hlutann af hundrað króna seðlinum í sinn vasa. Þeim mun lægri laun sem fólk hefur þeim mun hærra hlutfall tekur ríkið í sinn vasa en launþeginn, bótaþeginn, ellilífeyrisþeginn hefur minna fyrir sig að leggja.

Það er þetta sem skapar að mínu viti alvarlegasta velferðarhalla í þjóðfélagi okkar, gerir það að verkum að það eru hópar, ég vil segja stórir hópar í þjóðfélaginu, sem lifa undir fátæktarmörkum. Því var lýst og hefur verið lýst fyrir okkur, m.a. þegar við vorum í kosningabaráttu síðastliðið vor, af fólki, af öryrkjum og ellilífeyrisþegum, að það ættu ekki fyrir mat út mánuðinn vegna þess að bæturnar dygðu ekki til þegar búið væri að taka það sem keisarinn krafðist að fá í skatt. Þjóðfélag sem hefur þannig stjórnun fer ekki rétt að. Það er farið rangt að þegar við tryggjum ekki þeim sem minnst hafa fyrir sig að leggja mannsæmandi lífskjör.

Það kann vel að vera, eins og hv. 7. þm. Suðurk. sagði í ágætri ræðu sinni áðan, að þetta frumvarp eða þessi viðmiðun sem við frjálslynd leggjum til varðandi það að hækka skattleysismörkin í 150 þús. kr. sé ekki nóg, það þyrfti meira til. Það kann vel að vera. Hitt er annað mál að með því að leggja til þessa viðmiðun erum við í raun að fara mjög nálægt því sem skattleysismörkin hefðu þróast ef þau hefðu fylgt launaþróun á undanförnum árum. Við erum líka að gæta þess að fara ekki umfram það til að hægt sé að rökstyðja það að þrátt fyrir tekjutap sem kunni að verða af hálfu ríkisins komi hlutir í staðinn og þetta valdi ekki neinum vandamálum í sambandi við ríkisfjármálin þó að ekki komi til neins verulegs niðurskurðar á útgjöldum.

Við flytjum hér ábyrgt frumvarp og með því að gera það með þessum hætti erum við líka að leggja til að við stígum þetta, að mínu viti, stutta skref til að kanna, til að fá niðurstöðu um með hvaða hætti og hvernig þessi leið reynist. Kemur hún til með að sýna það að ég hafi rétt fyrir mér þegar ég held því fram að með því að hækka skattleysismörkin leysist mjög mikilvæg öfl úr læðingi á vinnumarkaðnum, að þá fjölgi Íslendingum sem eru tilbúnir til að taka að sér ýmis störf vegna þess að þeir hafi einhverja hagsmuni af því að gera það? Er möguleiki á því að við fáum ánægðara fólk og við fáum meiri jöfnuð í þjóðfélaginu? Ég held því fram að með því að samþykkja þetta frumvarp gerist þetta allt saman.

Að hverju stefnum við í stjórnmálastarfi? Við frjálslynd stefnum að því að hér geti ríkt það sem við köllum mannúðleg markaðshyggja sem felur það í sér að við nýtum kosti markaðsþjóðfélagsins á sama tíma og ríkisvaldið gætir þess að haga löggjöf og skattkerfi með þeim hætti að jöfnuður verði sem mestur í þjóðfélaginu, að við höldum okkur við þá aðferðafræði og það kerfi sem byggt var upp í markaðsþjóðfélagi Norðurlanda og Þýskalands í stað þess að snúa okkur að ofurgróðahugmyndum Engilsaxa. Það er á grundvelli þessara viðhorfa mannúðlegrar markaðshyggju sem við frjálslynd leggjum hér til að við stígum eitt lítið skref, stutt skref til þess að auka jöfnuð í þjóðfélaginu, til þess að bæta hag þeirra sem minnst hafa fyrir sig að leggja.