135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:01]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér örlítið inn í þá umræðu sem hér hefur farið fram um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt sem flutt er af þingmönnum Frjálslynda flokksins. Það kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi að tilgangur þess sé að bæta verulega hag lágtekjufólks með því að taka upp sérstakan persónuafslátt sem kæmi til viðbótar núverandi persónuafslætti.

Þetta frumvarp gefur tilefni til að ræða skattamálin almennt og á breiðum grunni. Nú vil ég alls ekki fullyrða hvort þetta frumvarp, verði það að lögum óbreytt, nái nákvæmlega þeim tilgangi sem því er ætlað. Ég hef ekki skoðað það svo rækilega að ég geti fullyrt um það eða myndað mér skoðun á því á þessu stigi málsins. Það mun væntanlega fá ítarlega umfjöllun í efnahags- og skattanefnd þar sem menn geta farið í kjölinn á þessu. En markmið frumvarpsins er augljóslega afar jákvætt að mínu mati, þ.e. að bæta hag þeirra sem hafa lægstar tekjur.

Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur margt athyglisvert fram, m.a. að því er ætlað að tryggja að lækka skatta hjá þeim einstaklingum sem hafa tekjur á bilinu 150–250 þús. kr. á mánuði en að við þau tekjumörk muni sérstaki persónuafslátturinn falla niður. Ég held að við getum, flest hér í þessum sal, verið sammála um að það eru ekki háar tekjur sem þessi mörk miða við, 250 þús. kr. á mánuði eru ekki háar tekjur í okkar samfélagi í dag enda þótt fjölmargir einstaklingar og fjölskyldur þurfi að lifa af svo lágum tekjum, að ekki sé talað um þá sem eru eingöngu á bótum eða lífeyrisgreiðslum.

Hér er sérstaklega fjallað um elli- og örorkulífeyrisþega. Í frumvarpinu segir að verði það að lögum að þá muni það sérstaklega bæta kjör þess hóps. Með frumvarpinu koma einnig fram upplýsingar sem vekja athygli og er ástæða til að dvelja aðeins við. Því það segir að nærri þriðjungur aldraðra hafi tekjur lægri en 120 þús. kr. á mánuði.

Það er óumdeilt að þarna er hópur sem býr við afskaplega þröng kjör og hag þeirra þarf að bæta. Það kemur líka fram í þeim upplýsingum sem flutningsmenn þessa frumvarps reiða fram í greinargerð, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi eldri borgara hefur þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna 1988–2007 hjá ellilífeyrisþega sem ekki býr einn verið fjarri því að halda í við kaupmáttaraukninguna hjá almenningi á sama tíma. Hefur hækkunin hjá ellilífeyrisþeganum verið aðeins tæplega 20% en 60% hjá almenningi.“

Kaupmáttaraukning almenns launafólks hefur að jafnaði, ef ég skil þetta rétt, verið þrisvar sinnum meiri, 300% meiri en kaupmáttaraukning hjá ellilífeyrisþegum. Það er auðvitað stóralvarleg þróun frá þeim tíma er staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1987. Það er full ástæða til að reyna með einhverjum hætti að taka á þessu. Tilgangur þessa frumvarp er bersýnilega sá að reyna að fara aftur til þess tíma þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp og koma á sambærilegum kjörum og voru á þeim tíma. Því leggja flutningsmenn hér til að færa skattleysismörkin upp í 150 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem hafa þær tekjur og lægri.

Einnig hefur verið imprað á ýmsum öðrum þáttum skattkerfisins. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur almennt grein fyrir því að skattkerfið hefur margs konar hlutverki að gegna. Það hefur tekjuöflunarhlutverk fyrir hið opinbera og fyrir samneysluna, fyrir þau samfélagsverkefni sem við viljum að séu rekin í landinu, en um leið má ekki gleyma tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Skattkerfið gegnir að sjálfsögðu mjög veigamiklu hlutverki sem tekjujöfnunarkerfi. Ég og margir aðrir hafa ævinlega verið þeirrar skoðunar að hugmyndir um flatan tekjuskatt, t.d. 20% sem sumir hafa nefnt eða jafn og fjármagnstekjuskattur eða skattur á lögaðila, sé varhugaverð þróun. Með því dregur maður mjög tennurnar úr tekjujöfnunarhlutverki skatta nema um leið verði tekið upp umfangsmikið millifærslu- og bótakerfi til þess að koma til móts við þá aðila sem lægstar tekjur hafa eða búa við lökust kjör. Það er því að mörgu að hyggja þegar menn koma að umræðum um skattkerfið.

Mér finnst líka athyglisvert sem þeir lögfræðingar sem hér hafa verið síðastir í ræðustól hafa verið að velta fyrir sér, sem er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar. Hvernig má það vera að fólki sé mismunað hvað varðar skattgreiðslur eftir tekjum, að þeir sem hæstar tekjur hafa greiði í raun lægra hlutfall í skatt? Þetta er auðvitað mjög mikið umhugsunaratriði, hvernig skattamálin hafa þróast hjá okkur í þessu efni.

Hér má ekki heldur gleyma því, sem ég vil koma inn á líka, en það eru skatttekjur sveitarfélaga. Þær breytingar sem orðið hafa í skattumhverfinu á undanförnum árum hafa valdið því að æ fleiri greiða nú einungis fjármagnstekjuskatt. Það kann að vera að það sé ekki stórt hlutfall skattgreiðenda í landinu en engu að síður vex sá hópur. Hann stækkar ár frá ári. Þá háttar þannig til að þeir einstaklingar sem greiða einungis fjármagnstekjuskatt, greiða ekkert framlag inn í sameiginlegan sjóð sveitarfélagsins sem þeir búa í þar sem sveitarfélögin fá enga hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Það þýðir það að þeir einstaklingar leggja ekkert af mörkum við samneysluna í sveitarfélaginu. Þeir leggja ekki sitt af mörkum til reksturs grunnskóla, til reksturs leikskóla, til að styrkja og styðja við íþrótta- og tómstundastarf, æskulýðsstarf, til að hægt sé að viðhalda götum og gangstéttum, grænum svæðum og til að styðja við menningarstarfsemi í sveitarfélaginu o.s.frv.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaða sanngirni er í því að tilteknir einstaklingar, venjulega þeir sem búa við best kjör, skuli ekki leggja neitt af mörkum til sveitarfélags síns, til nærsamfélagsins? Af hverju eiga foreldrar annarra grunnskólabarna að greiða grunnskólann fyrir börn þeirra sem greiða bara fjármagnstekjuskatt? Þetta er auðvitað hróplegt óréttlæti.

Sveitarfélög í landinu hafa raunar gert háværar kröfur um að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Ríkisvaldið hefur svarað því til að þetta sé ekki óskaplega fjölmennur hópur og ekki stórar upphæðir. En engu að síður skilar fjármagnstekjuskatturinn ríkissjóði sennilega í kringum 16 milljörðum kr. á ári. Ef sveitarfélögin fengju sömu hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum og í tekjuskattinum, þ.e. hlutfall útsvars af tekjuskatti, þá fengju sveitarfélögin 4 milljarða kr. af fjármagnstekjuskatti. Það mundi aldeilis muna um það fyrir sveitarfélögin í landinu, frú forseti. Þar er atriði sem ég tel mjög brýnt að taka á.

Það má auðvitað segja það sama um tekjuskatt lögaðila. Kerfisbreytingar hafa orðið til þess að margir einstaklingar eru hættir að taka laun sem launþegar og farnir út í rekstur, einkahlutafélag, greiða þar tekjuskatt sem lögaðilar í staðinn fyrir almennan tekjuskatt af launum. Það eru dæmi um það. Það hafa menn sagt, sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið, sérstaklega í litlum sveitarfélögum þar sem munar um hvern útsvarsgreiðanda. Það sést bara á sveitarsjóðnum. Sveitarstjórarnir verða varir við það og nánast vita um hvaða einstaklinga um er að ræða. Þeir hafa sagt að hjá sumum útgerðum sé enginn venjulegur sjómaður skráður um borð en kannski fimm einkahlutafélög. Þetta er alveg ótrúleg þróun og þýðir að sveitarfélögin fá heldur enga hlutdeild í tekjuskatti þeirra aðila. Þetta er oft tekjuhátt fólk í sveitarfélögunum. Það munar um þær tekjur fyrir sveitarfélögin.

Þannig viðgengst margs konar óréttlæti í skattkerfinu í dag sem ég tel fulla ástæðu til þess að taka á. Ég vil nefna þetta í þessu samhengi vegna þess að mér finnst mikilvægt að við á Alþingi ræðum skattamálin í víðu samhengi og veltum fyrir okkur hvernig við viljum deila skattbyrðinni. Það er öllum ljóst að hið opinbera verður að innheimta skatta til að standa undir samfélagsþjónustunni sem við viljum að sé veitt. Vitaskuld eru skiptar skoðanir, pólitískar skoðanir, um hversu mikil samneyslan á að vera og þar af leiðandi hverjar innheimtar skatttekjur eigi að vera. Um það er tekist milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi, í kosningum o.s.frv. Það er eðlilegt að það sé gert. Engum dylst að það er mikilvægt, engu að síður, að innheimta skatta og þá er mjög mikilvægt að skattar séu réttlátir.

Í þessari umræðu hefur komið fram að þær breytingar sem hafa orðið á skattkerfinu á undanförnum árum hafi einkum þjónað hagsmunum eða komið sér vel fyrir tekjuhærri hópa í samfélaginu. Það er mikið umhugsunaratriði en það er kannski ekki tilviljun að sú þróun hafi orðið þegar á það er að líta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forustu í landstjórninni og fjármálaráðuneytið undanfarin 16 ár. Þetta er auðvitað meðvituð pólitík, meðvituð stefna af hálfu stjórnvalda og hún birtist í þessu.

Í greinargerðinni með frumvarpinu, ég ætla að leyfa mér að vitna í hana, er fjallað um hvernig skattbyrðin hefur breyst á undanförnum árum, með leyfi forseta:

„Í lægstu tíund eru 10% tekjulægstu framteljendurnir og þannig koll af kolli. Borin er saman skattbyrði árin 1994 og 2004 og þá kemur í ljós að skattbyrðin hefur vaxið í öllum tíundarhópunum nema þeim hæsta þar sem hún hefur lækkað. Skattbyrðin hefur hins vegar þyngst mest í lægstu tekjuhópunum, um 14% í lægstu tíundinni og 15,3% í næstlægstu. Meðaltalshækkun skattbyrðarinnar hjá öllum tekjuhópunum er um 4,5% …“

Þetta opinberar hvernig Sjálfstæðisflokkurinn, sem stýrt hefur ríkisfjármálum og skattamálum um allt of langt skeið, hefur breytt skattbyrðinni og flutt frá þeim sem hafa háar tekjur og yfir á þá sem hafa lágar tekjur. Við þessu verður að bregðast. Það gengur ekki að halda áfram á sömu braut. Það verður engin sátt í samfélaginu um skattapólitík til lengdar sem hefur þennan útgangspunkt, enda sjáum við að í aðdraganda kjarasamninga og í ljósi þeirrar miklu þenslu og afkomu ríkissjóðs, samkvæmt fjárlagafrumvarpi, koma að sjálfsögðu upp kröfur um verulegar launahækkanir, ekki síst til handa þeim sem búa við lægstar tekjur. Það er eðlilegt að það komi fram og er óhjákvæmilegt að koma til móts við þær kröfur. Það verður engin sátt í samfélaginu um sífellt breiðara bil á milli hinna ríku og hinna fátæku.

Misréttið er hrópandi þegar við höfum í huga þær gríðarlegu fjárhæðir sem menn fá í laun, jafnvel launatekjur sem þeir borga tekjuskatt af, í sumum geirum samfélagsins og nægir þar að nefna fjármálageirann. Fyrir utan almennar launatekjur fá menn síðan alls konar aðrar sporslur, kaupréttarsamningar hafa verið nefndir og annað slíkt. Bilið á milli þeirra sem hafa allra hæstar tekjur, hvort sem það eru beinlínis launatekjur eða tekjur til komnar með öðrum hætti, og hinna sem eru á lægsta taxtakaupinu eða á bótum og lífeyrisgreiðslum, er svo gríðarlegt að það tekur engu tali. Það er alger óþarfi í 300 þús. manna samfélagi. Fullkominn óþarfi. Það er engin ástæða til að búa til gjá á milli fólks í okkar litla og fámenna samfélagi. Samt hefur þessi gjá myndast sem við höfum horft upp á.

Mér finnst jákvætt að þetta frumvarp sé lagt fram. Ég sagði í upphafi að ég hefði ekki kynnt mér það í öllum smáatriðum eða hvernig það muni nákvæmlega koma út. Ég hins vegar hef lesið frumvarpið og greinargerðina ágætlega. Þar eru margar góðar upplýsingar sem ég hef vakið athygli á hér og mér finnst mikilvægt að halda þeim til haga í þessari umræðu. Mér finnst eðlilegt að efni þessa frumvarps verði tekið til gaumgæfilegrar skoðunar í efnahags- og skattanefnd sem ég geri ráð fyrir að fái málið til umfjöllunar. Ég minni á að fyrir örfáum mánuðum síðan stóðum við öll í kosningabaráttu þar sem flokkarnir voru að sjálfsögðu að lofa gulli og grænum skógum til handa kjósendum, bæði bættri þjónustu í skattamálum, lífeyrismálum, launamálum o.s.frv.

Það er að mínu viti eðlilegt og óhjákvæmilegt að taka á skattamálum. Þau eru alls ekki í nógu góðu lagi hjá okkur í okkar ríka samfélagi. Því miður hefur þróunin orðið sú að bilið hefur heldur breikkað og skattbyrðin hlutfallslega aukist í tekjulægstu hópunum en minnkað í þeim tekjuhæstu. Það er ástand sem við eigum ekki að líða en því miður er hætt við að sú þróun muni halda áfram meðan Sjálfstæðisflokkurinn heldur um stjórnartaumana.