135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

efling kennslu í heilbrigðisvísindum í Háskólanum á Akureyri.

117. mál
[21:38]
Hlusta

Flm. (Þorvaldur Ingvarsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu kennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri.

Eins og við vitum hefur skortur á hjúkrunarfræðingum aukist á undanförnum árum og er talið að um 800 hjúkrunarfræðinga vanti á landinu öllu svo að þörfum heilbrigðiskerfisins sé fullnægt. Samkvæmt skýrslu Samtaka atvinnulífsins er gert ráð fyrir að meðalævi Íslendinga lengist um sjö ár til ársins 2050. Þessar miklu breytingar á lýðfræði þjóðarinnar eru háskólum og menntakerfi landsins krefjandi verkefni. Stjórnvöld og háskólar þurfa að bregðast við stóraukinni þörf fyrir sérfræðistörf í heilbrigðisvísindum.

Á landsbyggðinni vantar mikið af hjúkrunarfræðingum svo og ljósmæður og lækna. Þar sem mikil uppbygging er fram undan í þjónustu við aldraða er ljóst að enn þarf að efla kennslu í heilbrigðisvísindum. Það gefur augaleið að erfitt er að veita heilbrigðisþjónustu þegar starfsfólk vantar. Í heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri eru tvær greinar heilbrigðisvísinda kenndar, þ.e. hjúkrunarfræði og iðjuþjálfun. Nemendur í hjúkrunarfræði og iðjuþjálfun sækja verknám einkum til sjúkrahússins á Akureyri en einnig til heilbrigðisstofnana víða um land, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Brautskráðir hjúkrunarfræðingar og iðjuþjálfar frá Háskólanum á Akureyri starfa á heilbrigðisstofnunum um land allt og víst er að mikil óvissa ríkti um mönnun á mörgum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni ef starfskrafta brautskráðra frá Háskólanum á Akureyri nyti ekki við.

Lagt er til að kennsla í heilbrigðisvísindum verði efld við Háskólann á Akureyri, námsplássum í hjúkrun verði fjölgað og á það lagt mat hvort rétt sé að hefja kennslu í fleiri námsgreinum heilbrigðisvísinda. Við það verði miðað að nýjar leiðir verði nýttar í uppbyggingu náms þannig að eins stór hluti og hægt er byggist á sameiginlegum grunni. Framhaldsnámi í heilbrigðisvísindum, svo sem í dreifbýlislækningum og hjúkrun, verði og komið á fót.

Rannsóknir hafa sýnt að þeir nemendur sem ljúka námi við Háskólann á Akureyri setjast frekar að á landsbyggðinni. Í könnun sem Háskólinn á Akureyri gerði nýverið kom fram að 75% brautskráðra frá háskólanum búa og starfa á landsbyggðinni. Í annarri könnun, sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lét gera, kom í ljós að 80% brautskráðra hjúkrunarfræðinga frá Háskólanum á Akureyri starfa við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Niðurstöður þessara athugana sýna að áhrifaríkasta leiðin til að draga úr skorti á sérmenntuðu starfsfólki í heilbrigðiskerfinu á landsbyggðinni er að efla nám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri.

Því leggjum við til, herra forseti, að Alþingi álykti að fela menntamálaráðherra að sjá til þess að kennsla í heilbrigðisvísindum verði efld við Háskólann á Akureyri.