135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:39]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem ekki í ræðustól til að lýsa yfir afstöðu minni til þessa máls eða lýsa yfir stuðningi með þessu frumvarpi. Mér finnst hins vegar mörg athyglisverð rök hafa verið flutt af flutningsmanni sem sýna fram á skynsemi þess að breyta þessum lögum og þeirri skyldu sem snýr að bændum til að greiða gjaldið hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Ég vil gera athugasemd við ummæli síðasta ræðumanns, hv. þm. Bjarna Harðarsonar, um að hér sé um að ræða aðför að bændum vegna þess að þeim sé lífsnauðsynlegt að standa saman. Ekki efast ég um að nauðsynlegt sé fyrir bændur að standa saman í félagasamtökum sínum. En hér er ekki verið að koma í veg fyrir það. Hér er eingöngu mælst til þess að þessi skylda verði lögð niður, skyldan til að borga hvort sem þeim líkar betur eða verr og það verði val þeirra sjálfra. Ef samtök þeirra eru svona mikilvæg og ef samstaða þeirra er lífsnauðsynleg þá hljóta þeir náttúrlega sjálfir að taka þá afstöðu að greiða, hvort sem þeim er sagt að gera það eða ekki.