135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:29]
Hlusta

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að þetta verði óbreytt frá því sem nú er. Hér er lagt til að Hæstiréttur veiti aðeins umsögn til þeirrar nefndar sem raunverulega fjallar um málið þannig að hér væri einfaldlega um að ræða umsögn um það hvort menn uppfylli ákveðna hæfni til að gegna þessu embætti. Hugsunin er ekki sú að hann skipi þessu í röð, ég vil að það komi skýrt fram, heldur fyrst og fremst að hann veiti umsögn til þeirrar þingnefndar sem um málið fjallar. Það liggur fyrir.

Varðandi það hvort hæstv. dómsmálaráðherra eða hæstv. forsætisráðherra eigi að gera tillögu til þingsins tel ég að það sé varla stóra málið í þessu og skipti kannski ekki sköpum. Hugsunin er fyrst og fremst sú að forustumaður ríkisstjórnar geri þetta en eins og ég nefndi hér áðan væri jafnvel enn eðlilegra að forseti þingsins legði þessa tillögu fram. Hér er vissulega hreyft máli sem margir hafa skoðun á. Ég held að það sé mikilvægt að svona mál fái umræðu. Það er ekki hugur flutningsmanna að hér sé um hina endanlegu og fullkomnu leið að ræða en hér er hins vegar reynt að setja fram hugmynd sem byggir á þeirri hugsun sem þrígreining ríkisvaldsins byggir á og fylgja henni eftir. Eins og hér kemur fram telja flutningsmenn að þetta hafi greinilega orðið eftir í nauðsynlegum breytingum sem þarf að gera á íslenskri stjórnskipun.