135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[12:32]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu. Ég ætla að halda því fram að með félagshyggjustjórn hefðum við náð mun lengra á þessu sviði en nú er raunin. Ég ætla bara að segja það, vegna umræðna sem fóru fram hér á undan, að mér sýnist launaleyndarákvæðið í 19. gr. lakara en það sem nefndin lagði til. Hún lagði til að þetta kæmi strax inn í ráðningarsamninga.

Þetta er ekki fortakslaust ákvæði. Það er ekki fortakslaust. Það er því miður atvinnukúgun víða í gangi á vinnumarkaði. Hún hefur aukist með einokuninni. Fólk þorir ekki að kvarta. Fólk þorir ekki að stíga fram af því að afleiðingin væri uppsögn. Það fær jafnvel ekki störf í öðrum stórmörkuðum sama fyrirtækis. Það átti auðvitað að taka fortakslaust af skarið um launaleynd. Ef það er í ráðningarsamningi gengur hún gegnum allt.

Ég efast ekki um góðan vilja hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í þessum málum og ég efast ekki um góðan vilja hæstv. ráðherra, enda þekki ég hana mætavel og efast ekkert um viljann. Ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega en ég verð í framhaldinu að segja að heimildirnar til Jafnréttisstofu eru lakar. Þær ná ekki nógu langt. Ég hef gert það að umtalsefni og geri það enn: Af hverju eru Jafnréttisstofu ekki veittar sambærilegar eða betri heimildir en samkeppnisyfirvöldum og öðrum stofnunum sem sýsla með fjármál?

Kynbundinn launamunur er brot á jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Samkeppnisbrot eru það ekki. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju var ekki gengið lengra? Hér er um mannréttindabrot að ræða sem við erum sammála um. Eins gildir um hið kynbundna ofbeldi, það er brot á friðhelgi einkalífsins sem er okkar dýrmætustu einkalífsréttindi.