135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér um staðfestingu á bráðabirgðalögum er vel þess virði að eyða nokkrum tíma í til að fara yfir bráðabirgðalagavald ráðherranna, hvernig það hefur verið notað á síðustu árum og hvernig ætlun þeirra sem stóðu að því að gera stjórnarskrárbreytinguna 1991 var að það yrði notað. Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um þinglega meðferð málsins.

Ég sé í þeim gögnum sem fyrir liggja að aðeins tveir af 13 aðilum sem fengu málið til umsagnar hafa sent inn umsögn. Mér finnst umhugsunarefni hvers vegna þeir eru svona skeytingarlausir um erindi frá Alþingi um mál sem er auðvitað mikilvægt eins og flest, ef ekki öll, mál sem tekin eru fyrir á Alþingi. Staðfesting á bráðabirgðalögum er e.t.v. mikilvægari öðrum, en hér eru býsna margir aðilar sem taldir voru eiga hagsmuni í þessu máli og var gefinn kostur á að senda inn umsögn en gerðu það ekki. Mér finnst það mikið umhugsunarefni.

Annað sem mér finnst líka umhugsunarefni — fyrir utan það að ég held að framsögumaður meiri hluta eigi að fylgjast með umræðunni fremur en að standa fyrir henni úti í sal — sérstaklega í ljósi þess hvernig landbúnaðarnefnd meðhöndlaði síðustu bráðabirgðalög sem gefin voru út árið 2003 er að það virðist ekki sem neitt hafi verið farið yfir stjórnarskrárþáttinn í þinglegri meðferð nefndarinnar. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá formanni nefndarinnar hvort svo hafi verið, hverjir hafi þá verið kallaðir til nefndarinnar af sérfróðum mönnum á þessu sviði og hvert álit þeirra hafi verið.

Þegar landbúnaðarnefnd fjallaði um bráðabirgðalögin sem gefin voru út sumarið 2003 voru kallaðir til nefndarinnar menn sem taldir eru hafa mikla þekkingu á þessu sviði og þeir gáfu álit sitt á því hvort rétt hafi verið að gefa út bráðabirgðalögin, hvort það stæðist stjórnarskrána og annað það sem menn veltu fyrir sér. Meðal annars gaf Ragnhildur Helgadóttir lektor nefndinni álit á einum 15 blaðsíðum þar sem farið er lögfræðilega yfir þetta málefni. Það er mjög fróðlegt yfirlestrar og ég fer aðeins yfir það á eftir. Mig langar að vita hvort ekki hafi verið farið yfir þennan þátt málsins í hv. viðskiptanefnd. Taldi nefndin eða formaðurinn ekki þörf á því að kanna þennan þátt málsins, útgáfu bráðabirgðalaga og hvort tilefni hafi verið til þess miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar. Mér finnst nauðsynlegt að fá fram hvort svo hafi verið eða ekki, en miðað við það sem komið hefur fram verður ekki annað ályktað en að ekkert hafi verið vikið að þessum þætti málsins í meðförum nefndarinnar. Vonandi verður upplýst betur síðar í umræðunni hvort svo hafi verið eða ekki.

Í nefndaráliti meiri hlutans eru færð fram rök fyrir því að samþykkja eigi frumvarpið óbreytt. Rökin eru í meginatriðum þessi, virðulegi forseti: Þar sem aðili úti í bæ sneri sér ekki nógu snemma til ráðherra, sem er gagnrýnivert, var ráðherrann tilneyddur til að setja bráðabirgðalög.

Virðulegi forseti. Má ég biðja lögfræðinginn hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, að velta þessari röksemdafærslu fyrir sér? Er það fullyrðing hans að bráðabirgðalagavaldið verði til fyrir atbeina fyrirtækis úti í bæ? Getur þá fyrirtæki sem einhverra hagsmuna á að gæta, stórvægilegra eða smávægilegra, skapað rétt fyrir viðkomandi ráðherra til að setja bráðabirgðalög með því að snúa sér seint til ráðherrans og segja honum að málið sé komið í tímaþröng? Það eru alveg ný rök, virðulegi forseti, fyrir því að bráðabirgðalagaheimildin sé til staðar. Ég hef ekki heyrt þessi rök sett fram með þessum hætti fyrr í fyrri málum og mér þætti vænt um að framsögumaður nefndar færi aðeins yfir þetta í ræðu sinni síðar í umræðunni og skýrði sjónarmið sín eða nefndarinnar til þessa máls. Ber að taka það bókstaflega sem stendur í nefndarálitinu, að bráðabirgðalagavaldið geti verið í höndum einstakra fyrirtækja sem þau geta framkallað með vanrækslu til að sinna hagsmunum sínum? Það er alveg nýtt ef vanræksla í hagsmunagæslu fyrirtækis úti í bæ stofnar ráðherra rétt til að setja lög. Ef til vill eru rök fyrir þessu, ég skal ekki slá það út af borðinu og trúlega eru rök fyrir hendi fyrst þetta er sett fram sem rökstuðningur fyrir málinu. En þau eru nýstárleg, virðulegi forseti, og þess vegna langar mig til að fá hina lögfræðilegu útskýringu á þessum rökum. Hún kom ekki fram í framsöguræðu.

Mig langar aðeins að víkja að álitsgerð Ragnhildar Helgadóttur um bráðabirgðalögin sem sett voru 2003. Þar átti hlut í fyrirtæki sem taldi að hagsmunum sínum yrði stofnað í hættu ef ekki yrðu sett lög fyrir tiltekinn tíma. Forsendan fyrir því að landbúnaðarráðherra ákvað að setja lögin var sú að verja þyrfti þá hagsmuni og að þeir væru ríkir. Ragnhildur rekur breytinguna á stjórnarskránni 1991 og hvað hún þýddi. Hún rekur það sem fram kom í umræðum þá og ég fór aðeins yfir í 1. umr. málsins og þarf ekki að endurtaka, að þingflokksformennirnir sem fluttu málið voru á þeirri skoðun að breytingin sem fólst m.a. í að afnema deildaskiptingu Alþingis og að Alþingi sæti allt árið — fram að því hafði Alþingi verið slitið formlega að vori og þá misstu allar þingnefndir umboð sitt, forseti missti kjör sitt eða umboð þannig að það sat engin þingnefnd, enginn forseti sat, það var ekkert þing starfandi frá því að því var slitið að vori og þar til það var sett 10. október að hausti. Þess vegna var ekki óeðlilegt að einhver hefði löggjafarvald á þessu tímabili — en sú breyting var gerð að Alþingi sat og situr allt árið þaðan í frá. Þingnefndir halda umboði sínu og þingforsetar líka þannig að þingið er alltaf starfhæft, getur komið saman til fundar hvenær sem er með stuttum fyrirvara ef þörf er á. Það var samdóma álit þeirra sem stóðu að þeirri breytingu að þetta ætti að leiða til þess að fremur mundu menn kalla þing saman ef þyrfti að bregðast við aðkallandi aðstæðum og þingið setti löggjöfina en ráðherrann gerði það með því að nýta sér bráðabirgðalagavaldið.

Ég get sem dæmi vitnað í lítinn bút úr ræðu Ólafs G. Einarssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„En við leggjum til að þingið verði sett 1. okt. og það starfi fram í maí, lengur eða skemur eftir því sem verkast vill. Þá sé þingfundum frestað til loka þingársins með því skilyrði að það sé kallað saman ef nauðsyn krefur, t.d. til þess að afgreiða aðkallandi löggjöf að ósk ríkisstjórnar eða efna til mikilvægra umræðna.“

Þetta er m.a. undirstrikað í framsöguræðu í hinni þingdeildinni og þar ítrekar þetta sjónarmið framsögumaður þingflokksformaður Alþýðubandalagsins sem síðar varð þingmaður og talsmaður Samfylkingarinnar.

Annað sem hefur gerst frá því að stjórnarskránni var breytt er að afstaða dómstóla hefur breyst. Fram til þessa tíma töldu dómstólar að það væri ekki í þeirra verkahring að meta hvort ástæður hefðu verið fyrir því að beita bráðabirgðalagavaldinu og setja lög. Það var einfaldlega mat þess sem hafði valdið í sinni hendi, ráðherrans, og Alþingis. Eftir 1991 hefur það komið fram í dómum, t.d. árið 1992 í dómi Hæstaréttar, það álit Hæstaréttar að það sé dómstóla að meta. Það er ekki lengur utan valdsviðs dómstóla að meta hvort tilefni hafi verið fyrir hendi að setja bráðabirgðalög eða ekki, heldur eiga dómstólarnir mat um það eins og segir í dómi Hæstaréttar frá 1992, með leyfi forseta:

„Dómstólar eiga úrskurðarvald um það, hvort almenn lög samrýmast ákvæðum stjórnarskrár og hvort þau hafi orðið til á stjórnskipulegan hátt. Eðlisrök leiða til þess að hið sama gildi um bráðabirgðalög.“ — Þetta er mikil breyting.

Árið 1995 er annar hæstaréttardómur út af bráðabirgðalögum sem sett höfðu verið einhverjum árum áður. Þá er tekist á um það hvort heimildin hafi verið fyrir hendi til að setja bráðabirgðalögin. Það var löggjöf um almennt málefni, ekki um málefni eins fyrirtækis eða eins sveitarfélags. Niðurstaða Hæstaréttar varð, með þremur atkvæðum gegn tveimur, að heimildin hefði verið fyrir hendi til að setja bráðabirgðalögin — enda tilefnið brýnt — en tveir hæstaréttardómaranna sögðu: Heimildin var ekki fyrir hendi vegna þess að hafi þetta verið brýnt átti að kveðja Alþingi saman.

Þá sjáum við breytinguna sem hefur orðið í afstöðu dómstóla. Hún færist frá því að dómstólarnir segja: Þetta kemur okkur ekki við, yfir í að það er samþykkt með minnsta mun að brýnt tilefni sé nægjanlegt en stærsti mögulegur minni hluti telur að kalla verði þingið saman. Við sjáum hvert þróunin er að fara.

Sem dæmi til marks um þessa þróun segir Ragnhildur Helgadóttir í álitsgerð sinni þegar hún lýsir skoðun sinni á því hvort þessi bráðabirgðalög hefði átt að setja eða ekki, með leyfi forseta:

„Ég er þeirrar skoðunar, að þegar bráðabirgðalög voru sett til að bregðast við aðstæðum sem fyrirsjáanlega fylgdu í kjölfar þess að frestur til innleiðingar tilskipunarinnar rann út, án þess að reynt hefði verið að leggja frumvarp fyrir þingið sem kom saman rétt um tveimur vikum áður en áðurnefndur frestur rann út, hafi verið gengið of nærri skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn eins og hún verður skýrð með hliðsjón af þeim ummælum sem féllu á Alþingi við breytingu stjórnarskrárinnar 1991, sbr. líka Hrd. 1995.2417, og með hliðsjón af grundvallarhugmyndum stjórnskipunarinnar um löggjafarhlutverk Alþingis og gildi þess í lýðræðisþjóðfélagi að mál séu rædd á þingi þannig að mismunandi skoðanir geti þar tekist á.“

Með öðrum orðum er skoðun Ragnhildar Helgadóttur sú að bráðabirgðalögin 2003 hafi gengið of nærri stjórnarskránni, ekki hafi verið heimilt að setja þau. Það er hennar skoðun. Það er líka hennar mat að dómstólar hefðu ólíklega fellt þessa heimild. Það er mat á viðhorfum dómara sem hún hefur á þeim tíma en hennar eigið mat er að þetta hafi ekki gengið, þetta hafi brotið gegn stjórnarskránni.

Það hefur orðið mikil þróun líka síðan þetta var gefið út fyrir fjórum árum í þá veru að vinna gegn því að gefin séu út bráðabirgðalög, í þá veru að það sé Alþingi sem eigi að setja lögin. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna var enginn efi hjá ráðherranum eða viðskiptanefndinni um að það stæðist stjórnarskrána að setja bráðabirgðalögin í ljósi viðhorfsbreytinga sem orðið hafa í Hæstarétti, í ljósi mikillar gagnrýni sem þessi tilteknu bráðabirgðalög frá 2003 sættu og í ljósi þess að þetta mál er að mörgu leyti svipað málinu frá 2003? Málið er ekki almennt, það snertir ekki almannahagsmuni, það snertir hagsmuni eins fyrirtækis. Það verður ekki séð að hagsmunir almennings hefðu rótast neitt þótt ekkert hefði verið gert þannig að öll rök í þessu máli hníga í þá átt að það hafi verið gengið of langt í að beita þessari heimild við þær aðstæður sem voru uppi núna, 2007, það hafi ekki verið brýn nauðsyn til að beita þessari heimild. Það liggur fyrir. Þess vegna finnst mér einkennilegt að nefndin víki ekki einu orði að því, eða ráðherrann, og reyni ekki að rökstyðja að það hafi verið brýn nauðsyn.

Ég vil svo bæta við fleiri rökum til að draga það fram að einmitt þetta mat árið 2003 hafi sætt mikilli gagnrýni og það frá þingmönnum hér á Alþingi þegar staðfestingarlögin voru til umfjöllunar hjá þeim haustið 2003. Þá voru ekki aldeilis allir þingmenn á þeirri skoðun að þetta hefði verið í lagi. Það var gefið út minnihlutaálit landbúnaðarnefndar á þeim tíma og í því ítarlega áliti segir, með leyfi forseta:

„Við þessa skoðun kom fram að bráðabirgðalögin frá því í sumar virðast ekki eiga sér hliðstæðu í réttarsögunni. A.m.k. er varla að finna nokkurt tilvik þar sem sérstök lög hafa verið sett vegna lítilla fjárhagslegra hagsmuna fárra fyrirtækja og aðrir hagsmunir þar með verið settir í uppnám.“

Og niðurstaðan hjá minni hlutanum, með leyfi forseta:

„Að öllu þessu virtu og teknu tilliti til þeirra röksemda sem fram koma í áliti þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina er það skoðun minni hlutans að skilyrðið um brýna nauðsyn til setningar bráðabirgðalaga, skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, hafi ekki verið uppfyllt þegar lögin voru sett.“

Hverjir skyldu hafa gefið út þetta minnihlutaálit? Það voru eftirfarandi þingmenn: Lúðvík Bergvinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson og Ásgeir Friðgeirsson. Þrír þingmenn Samfylkingarinnar voru á þeirri skoðun að bráðabirgðalögin 2003 stæðust ekki stjórnarskrána. Hver er munurinn á bráðabirgðalögum 2007 og 2003, virðulegi forseti? Ég geri kröfu til þess að varaformaður Samfylkingarinnar útskýri fyrir þingheimi hvers vegna hann kemst að þeirri niðurstöðu, og Samfylkingin, að bráðabirgðalögin 2007 standist stjórnarskrána þegar þeir komust að þeirri niðurstöðu fyrir fjórum árum að svo væri ekki. Auðvitað eru þessi mál ekki að öllu leyti eins en þau eru mjög lík. Mér finnst forvitnilegt þegar þar að kemur að heyra rökin fyrir því hvers vegna gagnstæð niðurstaða fæst í málinu núna.

Framsögumaður þessa nefndarálits, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, rekur m.a. í framsöguræðu sinni fyrir nefndarálitinu dóminn í Hæstarétti 1995 sem ég gat um þar sem tveir af fimm dómurum Hæstaréttar töldu að ekki hefði verið rétt að gefa út bráðabirgðalögin, heldur hefði átt að kalla saman Alþingi. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem nú er þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir, með leyfi forseta, um þennan dóm:

„Enn fremur er að finna í niðurstöðu minni hluta Hæstaréttar að hann metur það svo að við þær aðstæður að ríkisstjórnin telur að nauðsynlegt sé að beita bráðabirgðalagaheimildinni sé henni í raun skylt, eftir breytingarnar 1991, að kalla saman þing.“

Þetta er túlkun þingflokksformanns Samfylkingarinnar á áliti tveggja dómara, að ríkisstjórninni sé skylt að kalla saman þingið en hafi ekki heimild til að setja bráðabirgðalög. Hann var þeirrar skoðunar 2003 og Samfylkingin var þeirrar skoðunar 2003, virðulegi forseti. Hvers vegna er þingflokksformaðurinn ekki lengur þeirrar skoðunar nú, 2007? Hvað er svo brýnt núna árið 2007 sem ekki var brýnt 2003? Voru einhver sérstök atvik sem eru enn brýnni nú en voru uppi fyrir fjórum árum? Við getum fengið það svar í framsöguræðu ráðherrans fyrir staðfestingarfrumvarpinu. Hvað segir ráðherrann um hina brýnu nauðsyn sem allt veltur á? Hann segir um það, með leyfi forseta:

„Sumarþingi var lokið þegar þetta mál kom upp og þá var annaðhvort að bregðast við því með þessum hætti — auðvitað hefði verið hægt að kalla þingið saman …“

Ja, hann segir það.

„… enda situr þingið allt árið eins og þekkt er, en tilefnið var kannski ekki nógu brýnt til að gera það.“

Þá er komið alveg nýtt sjónarmið í málið. Til þess að nota bráðabirgðalagaheimildina verður að vera brýn nauðsyn. Á því veltur heimildin. Nú kemur ráðherrann með bráðabirgðalögin sín og segir: Við hefðum kannski átt að kalla saman þingið. Þetta var bara ekki nógu merkilegt mál til þess.

Hvernig á að vera hægt að fá heila brú út úr þessari röksemdafærslu? Ráðherrann er að kippa fótunum undan öllum rökstuðningi sem hægt er að finna fyrir því að gefa út bráðabirgðalögin þannig að það liggur bara fyrir og þarf ekki að ræða það meira. Það er ekkert brýnt tilefni fyrir hendi að mati þess sem setti bráðabirgðalögin. Nú væri gaman að einhver góður maður færi með málið fyrir dómstóla. Þeir eru búnir að gefa það út að það sé á þeirra valdi að meta hvort þetta sé rétt eða ekki og ég skora á einhvern góðan sjálfstæðismann að fara með þetta fyrir dómstóla. Ég man eftir því fyrir nokkrum vikum að einhver, ég held að það hafi verið fráfarandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, boðaði það að hann ætlaði að stefna formanni sínum eða fjármálaráðherra, ég man ekki hvorum, fyrir dómstóla til að fá fellda úr gildi heimild til að birta úr skattskrám. Mér finnst það gott framtak hjá ungum sjálfstæðismanni að fara fyrir dómstóla með þetta og láta ráðherrana ekki komast upp með neitt múður. Þetta er líka mál sem hægt er að fara með fyrir dómstóla. Það er spurning hvort það séu ekki einhverjir ungir sjálfstæðismenn, eða eldri, þeir mættu vera eldri, sem vildu fara með þetta fyrir dómstóla. Við skulum sjá til hvort þeir gefa sig ekki fram eða kannski samfylkingarmenn sem voru mjög á móti þessu fyrir fjórum árum. Mig langar til að minna hv. þingheim á ummæli hv. þm. Helga Hjörvars, á það sem hann sagði í þessu máli, með leyfi forseta:

„En ef það var knýjandi nauðsyn að sett væru lög, þá skil ég ekki hvers vegna þingið var ekki kallað saman til að fjalla um það. Og í því efni, virðulegur forseti, velti ég fyrir mér hlutverki forseta Alþingis og því hvaða samskipti hafi farið fram milli Stjórnarráðsins og Alþingis í aðdraganda málsins. Ég veit ekki betur en ég sé á launum hjá hinu háa Alþingi í 12 mánuði á ári og kalla megi mig til starfa, sé til þess knýjandi þörf, með tiltölulega skömmum fyrirvara. Og hafi sú knýjandi þörf verið fyrir hendi, þá ítreka ég að ég skil ekki hvers vegna það ekki var gert.“

Ég spyr bara eins og hv. þm. Helgi Hjörvar: Hvaða samskipti fóru fram í aðdraganda þess að bráðabirgðalögin voru sett? Talaði ríkisstjórnin við forseta Alþingis og spurði hann: Ert þú til í að kalla saman þingfund svo að við getum lagt fram stjórnarfrumvarp? Það væri fróðlegt ef forseti upplýsti það síðar í umræðunni hvort svo hafi verið. Það væri líka gaman að fá að vita hvort fylgt hafi verið þeirri gömlu venju sem að vísu hefur ekki alltaf verið fylgt síðustu árin, a.m.k. ekki 2003, að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi verið kallaðir saman áður en bráðabirgðalögin voru gefin út til að tryggja að það væri meirihlutastuðningur á Alþingi fyrir lögunum og hægt væri að segja forseta Íslands: Við höfum kannað bakland okkar og fyrir þessu er samþykktur meirihlutastuðningur. Var það gert, virðulegi forseti? Voru þingflokkar stjórnarflokkanna kallaðir saman til að svara spurningunni hvort þeir styddu það að sett yrðu bráðabirgðalög? Ef svo var, ef þingflokkarnir voru kallaðir saman, virðulegi forseti, hver voru svör þeirra? Er það virkilegt að þingflokkur Samfylkingarinnar styddi það að setja bráðabirgðalög af tilefni sem var ekki nægilega brýnt til að kalla saman Alþingi? Við hljótum að kalla eftir svörum við öllum þessum spurningum. Það er ekki tækt fyrir stjórnmálaflokk að tala fyrir fjórum árum marga klukkutíma í öllum þremur umræðum málsins gegn því að heimilt hafi verið að setja bráðabirgðalög en snúa svo um 180 gráður fjórum árum seinna af því að hann er kominn í ríkisstjórn og láta eins og það sé í góðu lagi að setja bráðabirgðalög og halda því meira að segja fram, ef ég skil rökstuðninginn rétt, að þeir sem reka fyrirtæki úti í bæ geti framkallað bráðabirgðalagavald hjá einstökum ráðherra með vanrækslu á hagsmunagæslu sinni. Það er alveg dæmalaus málflutningur, virðulegi forseti.

Hvar er nú siðbótin í íslenskum stjórnmálum? Hvert var erindi Samfylkingarinnar inn á Alþingi? Var það bara til að setjast í gömlu stólana og vera jafnþorir og þeir sem á undan voru í að sniðganga ákvæði stjórnarskrár eða, við skulum segja, ganga a.m.k. ystu mörk? Var það erindið? Var allt talið um siðbótina og siðvæðinguna og samræðustjórnmálin, virðulegi forseti, bara hégómi? Var verið að kasta ryki í augun á kjósendum? Hvernig eiga hv. kjósendur að meta Samfylkinguna núna? Þeir klóra sér örugglega í höfðinu yfir því hvernig þessi flokkur er. Er þetta bara gamli spillti hinn flokkurinn sem var? Eða hvað var hann kallaður meðan Samfylkingin var í stjórnarandstöðu? Ég er búinn að gleyma því, virðulegi forseti. Mér helst stundum illa á að muna eitt og annað.

Ég gæti rifjað upp fleiri ummæli frá einstökum þingmönnum Samfylkingarinnar um þessi bráðabirgðalög fyrir fjórum árum og afstöðu þeirra sem var mjög skýr og tær og t.d. nákvæmlega sú sama og afstaða hv. þm. Atla Gíslasonar í umræðunni. Ég hlýt að fara fram á það, virðulegi forseti, að þeir skýri betur afstöðu sína í þessu máli, kúvendinguna í rökstuðningi sínum og hvers vegna þeir styðja núna það sem þeir áður töldu ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Skyldan hvílir á þeim að gera grein fyrir því hvað það er sem gerir þeim kleift að hafa aðra skoðun nú en fyrir fjórum árum. Ég skal ekki útiloka að það sé hægt að fallast á þær skýringar þegar þær hafa verið reiddar fram. Það er aldrei skynsamlegt að hafna því fyrir fram að menn kunni að vera sammála því sem menn segja síðar í umræðunni, en það hefur ekki komið fram, hvorki í framsögu fyrir málinu né nefndarálitum, þannig að ég bíð spenntur eftir að heyra skýringarnar og vonast til að þær komi greiðlega fram síðar í þessari umræðu, virðulegi forseti.