135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:18]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á spurningar sem lutu að vinnulagi viðskiptanefndar. Að sjálfsögðu var í þeirri umræðu komið inn á sjálft stjórnarskrárákvæðið. Engir sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar komu fyrir nefndina og engin krafa kom um slíkt frá neinum nefndarmanna, hvorki frá Frjálslynda flokknum né öðrum. En að sjálfsögðu tengdist umræðan í nefndinni mati á því hvort brýn nauðsyn hafi verið til staðar eða ekki.

Eins og hv. þingmaður gat sjálfur um þá sendum við frumvarpið víða til umsagnar. Einungis tveir aðilar skiluðu inn umsögn. Einnig varð talsverð umræða í sumar þegar lögin sjálf voru sett.

Umræðan um þetta mál snýst að sjálfsögðu um það hvort brýnt hafi verið að setja bráðabirgðalög. Í Stjórnskipunarrétti eftir Gunnar G. Schram stendur, með leyfi forseta: „Getur því verið nauðsynlegt að gefa út bráðabirgðalög ef brýna nauðsyn ber til á þeim tíma sem Alþingi situr ekki á fundum eða ekki þykir rétt að kalla Alþingi saman til fundar.“

Einnig segir, með leyfi forseta: „Þessi skilyrði eru að Alþingi sitji ekki, að brýn nauðsyn sé til lagasetningar og að bráðabirgðalögin brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.“ Meiri hlutinn telur að þessi skilyrði hafi einfaldlega öll verið uppfyllt.

Einnig stendur, með leyfi forseta: „Eftir orðanna hljóðan er ekki nægjanlegt að löggjöf sé æskileg, skynsamleg eða jafnvel nauðsynleg, heldur að þörfin á löggjöf sé svo brýn að ekki megi bíða þar til þing hefji aftur störf. Einhverjir verulegir hagsmunir verða að vera í húfi.“

Og litlu neðar segir, með leyfi forseta: „Annað sem skýrir þetta sem brýna nauðsyn er óneitanlega matskennt og teygjanlegt.“

Gunnar G. Schram kemur inn á það að mat á því að brýna nauðsyn beri til setningar bráðabirgðalaga hlýtur, með leyfi forseta, „að verulegu leyti að byggjast á því að hvaða markmiðum er stefnt hverju sinni í stjórnmálum og hvernig þeim skuli náð — því marki er verulegur hluti almennrar löggjafar brenndur. Verður m.a. af þeim sökum að líta svo á að bráðabirgðalöggjafinn hafi allfrjálsar hendur um slíkt mat en þó ekki óbundnar með öllu.“

Að sjálfsögðu er hér um mat að ræða. Menn geta verið ósammála því mati. En ríkisstjórnin og Samfylkingin þar á meðal styður það að brýnt hafi verið að setja umrædd bráðabirgðalög. Þess vegna mælum við fyrir staðfestingu á þessu máli í dag. (Forseti hringir.)