135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

hækkun stýrivaxta.

[10:47]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki upphafi umræðunnar þar sem ég var með viðskiptanefnd í heimsóknum úti í bæ en eins og ég skynja hana núna síðustu mínúturnar koma ráðherrar og stjórnarsinnar hér upp, gagnrýna ákvörðun Seðlabankans og tala nánast eins og stjórnarandstæðingar, eins og þessir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hafi það ekki í hendi sér ef þeir vilja breyta lögum þannig að Seðlabankinn hafi önnur tæki til að taka á efnahagsmálunum eða jafnvel breyta verðbólgumarkmiðunum. Það er ýmislegt hægt að gera ef stjórnvöld vilja taka á málum og ef stjórnvöld skilja að þetta gengur ekki svona.

Þegar dollarinn er kominn niður fyrir 60 kr. eins og hann var í gær — ég hef ekki athugað hvernig hann stóð í morgun — og evran í samræmi við það geta útflutningsgreinarnar ekki rekið sig. Það getur vel verið að hæstv. ráðherrar séu svo langt frá því að vera í nokkru sambandi við útflutning og útflutningsfyrirtæki að þeir hafi ekki áhyggjur. Ef það er þannig erum við í mjög alvarlegri stöðu.

Ég segi: Það er ekki hægt að halda þessu svona áfram. Það er rétt sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, vissulega bíta þessir vextir ekki nema á mjög lítinn hluta markaðarins. Það þarf þá að gera eitthvað í því, það er ekki hægt að koma hér bara eins og stjórnarandstæðingar og gagnrýna þegar menn hafa völdin. (Gripið fram í.) Ég er alveg tilbúin og panta hér að efna til lengri umræðu um þetta mál. Af því að hæstv. utanríkisráðherra var að biðja um lengri umræðu er líka best að hún fari fram sem allra fyrst. Þá fáum við vonandi að heyra hvað stjórnvöld ætla að gera annað en að koma bara hér upp í þennan stól og fría sig ábyrgð.