135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:18]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Almennt má segja um frumvarpið að það gengur í þá átt sem ég tel að löggjöfin eigi að gera varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Ég tel að sveitarfélögin eigi að hafa frjálsar hendur um þá tekjustofna sem þau hafa.

Þess vegna fannst mér ekki rétt skref á sínum tíma þegar ákveðið var að setja lágmark í útsvarið og að sama skapi er ekki rétt skref að mínu viti að hafa hámark. Með því móti stýrir ríkisvaldið gjörðum kjörinna sveitarstjórna um of. Þegar saman blandast áhrif Jöfnunarsjóðs sveitarfélag er sjálfstæði sveitarfélaganna orðið afar takmarkað í skattlagningarmálum.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur í dag liðlega 10 milljarða kr. umleikis sem hann fær úr ríkissjóði og dreifir til sveitarfélaga samkvæmt reglum sem eru ekki að öllu leyti lögákveðnar heldur. Það er mjög sérkennilegt fyrirkomulag að dreifa skattfé með þeim hætti. Ég get svo sem gagnrýnt það, geri það kannski síðar við annað tækifæri, en jöfnunarsjóðurinn er að mínu viti öfugmæli. Honum er auðvitað ætlað að jafna tekjur sveitarfélaga en hann er öfugsnúinn í þeim skilningi að hann vinnur gegn því sem á að vera helsta markmið sveitarstjórnanna, að vera sjálfstæðar. Meðal annars er í Evrópusáttmálanum um sveitarfélög ákvæði sem Íslendingar hafa staðfest fyrir sitt leyti með undirskrift um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Það er orðið ansi lítið, það er gagnrýnivert og það er ástæða til að fara að stíga skrefið til baka. Þetta frumvarp gerir það og þess vegna finnst mér það vera í rétta átt.

Ég tel hins vegar að menn eigi að stíga stærra skref og afnema bæði hámark og lágmark. Og ég tel að menn eigi líka að afnema jöfnunarsjóðinn. Það mun auðvitað taka lengri tíma að koma þeirri breytingu á en ég tel fráleitt fyrirkomulag að vera með 10 milljarða kr. sjóð sem fimm manna stjórn útdeilir samkvæmt eigin niðurstöðu og ákvörðun ráðherra. Þetta á auðvitað að vera ákveðið í lögum og tekjur sveitarfélaga eiga að renna beint til þeirra en ekki í gegnum milliliði. Það rýrir sjálfsstjórn sveitarfélaga að þurfa að vera upp á náð og miskunn jöfnunarsjóðs komin. Það eru sum sveitarfélög, og þau kannski fleiri en færri, sem búa við það allt að fjórðungur, eða jafnvel ríflega það, af tekjum þeirra kemur frá jöfnunarsjóði. Það er þannig ekkert samband á milli skattgreiðandans og sveitarfélagsins.

Til þess að sveitarfélagið sé sjálfstætt í tekjuöflun sinni þarf það að ráða tekjustofnum sínum. Þess vegna eiga tekjustofnar sveitarfélaga að vera þannig ákvarðaðir að tekjurnar renni beint til viðkomandi sveitarfélags, annaðhvort með því að sveitarfélagið leggur sjálft gjöld á viðkomandi einstakling — fyrirgefðu, forseti, ég held að ég sé að ónáða þennan fund hérna úti í sal — annaðhvort með því að sveitarfélagið leggur gjöld beint á gjaldandann, einstakling, fyrirtæki eða lögaðila, eða þá að sveitarfélagið fær tekjur sínar beint af almennum tekjustofni eins og virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti eða einhverju slíku þar sem ákvæði laganna gengur frá því hvernig eigi að dreifa þeim fjármunum til einstakra sveitarfélaga. Þá er aldrei neinn milliliður í þeim efnum sem getur tekið eigin ákvarðanir um tekjurnar og hvernig þeim er dreift. Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti.

Í þriðja lagi vil ég segja, og kannski rifja það upp, að þegar þetta var sett í lög 1993 var það að beiðni Reykjavíkurborgar sem var þá undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Hún stóð þá í þeim sporum að hún þurfti að afla sér hærri tekna og þurfti að hækka útsvarið. Sjálfstæðisflokkurinn sem var með meiri hluta þá hafði ekki pólitískt þrek til að taka sjálfstæða ákvörðun á heimavelli um að hækka útsvarið. Þess vegna var farin sú leið að koma með erindi til Alþingis og biðja það að setja lágmark, setja gólf í útsvarið, og Alþingi varð við því. Gólfið var auðvitað valið passlega til þess að það hentaði Reykjavíkurborg á þeim tíma þannig að þar með var útsvarið í Reykjavík á skattgreiðendur hækkað með lögum frá Alþingi en ekki með beinni ákvörðun hins pólitíska meiri hluta.

Sá sem lagði þessu mest lið var þáverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sem heitir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Það er dálítið merkilegt um þróunina á stöðu hans á síðustu vikum að tekið skuli upp þetta helsta baráttumál hans frá 1993 hér á Alþingi.