135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[12:10]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þetta frumvarp er fram komið og ég fagna því að verið sé að mæla fyrir því þannig að málið fari í nefnd. Ég held að sambærilegt mál hafi ekki áður verið rætt í hv. allsherjarnefnd.

Núna, árið 2007, verðum við að fara að stíga út úr kassanum í umræðum um fjölskyldumál. Við verðum að fara að stíga út úr þeim ramma sem við höfum lifað í hingað til. Fjölskylduform á Íslandi hefur gjörbreyst og það á mjög skömmum tíma.

Öllum þessum breytingum, sem er stýrt af fullorðnum, tengjast börn sem við þurfum að huga að og gæta að. Við verðum að tryggja þeim að þau geti átt fullt og gott samband við báða foreldra til jafns. Mér finnst þetta mál athyglisvert vegna þess að útgangspunkturinn er réttur barnsins.

Umræðan um forsjárforeldri sem ekki fer með lögheimili barns síns finnst mér áhugaverð. Sú umræða hefur ekki farið fram og við þurfum að breyta og laga margt varðandi forsjárlausa foreldra. Við þurfum ekki síður að beina sjónum að þeim sem fara með forsjána en eru ekki með lögheimilið. Mér finnst það áhugaverðasta í þessu frumvarpi að tekið skuli á þeim þætti, þ.e. lögheimili barnsins, að lagt sé til að því verði skipt á milli foreldra.

Hv. varaþingmaður Guðmundur Steingrímsson hefur lagt inn fyrirspurn í þinginu, vill fá skriflegt svar til félagsmálaráðherra um stöðu forsjárforeldra sem hafa annað lögheimili en börnin þeirra. Það verður áhugavert að sjá svarið við þeirri fyrirspurn. Hann spyr félagsmálaráðherra hvort hún hyggist láta nefnd á vegum ráðuneytisins, sem á að kanna félagslega, fjárhagslega og réttarfarslega stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra, kanna á sama hátt foreldra sem eru með sameiginlegt forræði en hafa annað lögheimili en barn þeirra. Þetta skiptir líka máli vegna þess að það er oft í orði en ekki á borði sem hin sameiginlega forsjá á sér stað.

Ég fagna þess vegna frumvarpinu mjög. Ég hef oft undrað mig á því hvers vegna annað foreldri barns sem er hjá báðum foreldrum nýtur eingöngu vaxtabóta, húsaleigubóta og barnabóta, hvers vegna eingöngu annar aðilinn fær slíkar bætur sem einstætt foreldri þegar hann deilir ábyrgðinni klárlega með hinu foreldrinu.

Ég er ánægð með að hv. þm. Dögg Pálsdóttir kemur hingað inn og dregur okkur út fyrir þægindaboxið okkar í þessum efnum. Ég fagna umræðunni og hlakka til nefndarvinnunnar og ekki síst til þess að sjá umsagnirnar sem berast munu um málið.

Hér er einnig verið að leggja til talsverðar réttarbætur til handa foreldrum sem ekki eru með forsjá. Ég fagna því verulega og tel að tími sé kominn til. Einnig er verið að tryggja umgengni barna við foreldri, þ.e. sú tillaga að meginreglan verði sú að forsjá barns færist til langlífari kynforeldris án tillits til þess hvort foreldrar hafi farið saman með forsjána eða ekki. Þetta getur skipt verulegu máli en engu að síður, eins og hv. þingmaður sagði, á ekki að taka út þá reglu að yfirlýsing frá forsjárforeldri geti haft áhrif ef forsjárforeldri telur réttara að annar en hitt kynforeldrið fari með forsjá barns.

Það er ágætt að hafa þann varnagla, en ég tel það mjög mikilvægt skref að þetta verði meginreglan. Ég segi varnagla, vegna þess að við vitum að í ákveðnum tilfellum er kynforeldrið hreinlega ekki til staðar. Það er óþarfi að fara að elta menn inn í skóga Amason eða viðlíka til þess að leita þá uppi ef þeir vilja ekki finnast.

Ég fagna líka þeim lið að forsjárlaust foreldri eigi rétt á munnlegum jafnt sem skriflegum upplýsingum um barn sitt. Það á að vera réttur hvers foreldris að fá upplýsingar um það sem er að gerast í lífi barna sinna.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt um þetta og fagna enn og aftur framkomu frumvarpsins. Ég vona að þingheimur eigi eftir að feta í fótspor hv. þm. Daggar Pálsdóttur og stíga aðeins út úr kassanum þegar farið verður yfir málið í hv. allsherjarnefnd.