135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[12:25]
Hlusta

Flm. (Dögg Pálsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls í umræðunni fyrir mjög jákvæð viðbrögð við frumvarpinu. Þau gefa mér von um að frumvarpið nái í gegn á þinginu jafnvel þótt einhverjar breytingar verði á því.

Mig langar til að nefna örfá atriði vegna þess sem komið hefur fram. Í fyrsta lagi nefndi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir að of stíft væri að segja sjö daga af hverjum 14. Ég vil undirstrika að í lagatextanum stendur: Allt að sjö dögum af 14. Þar er því ekki sagt að það skuli vera sjö dagar af 14 heldur að það geti verið allt að sjö af hverjum 14. Á því er meginmunur og er einkum dómstólum og sýslumönnum sem fara með þessi mál bent á að með umgengni sé ekki aðeins átt við helgarumgengni eins og hefðbundið viðhorf er.

Vissulega er ekki alltaf réttlætanlegt að umgengni sé sjö dagar af hverjum 14. Það verður að meta í hverju tilviki en þarna er eingöngu bent á svo geti verið við vissar aðstæður.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um hvort aldur barna skipti máli. Hefðbundið viðhorf er, m.a. hjá dómstólum, að börn virðist þurfa meira á mæðrum sínum að halda þegar þau eru ung. Ég mótmæli þessu viðhorfi. Fjölmörg dæmi sýna að börn þurfa á báðum foreldrum sínum að halda. Börn sem einhverra hluta vegna geta ekki verið með mæðrum sínum frá fæðingu spjara sig prýðilega hjá feðrum sínum. Hér er enn um kynjaviðhorf og kassahugsun að ræða og því þurfum við að breyta.

Eins og réttilega var bent á vantar okkur nánari skilgreiningu á því hvað felst í sameiginlegri forsjá. Til að mynda er túlkun laga um lögheimilisbreytingu þegar um er að ræða sameiginlega forsjá skýrt dæmi um það. Hún er þess efnis að ég tel að breyta þurfi lögunum sem annars ætti ekki að þurfa að breyta. Það er skýrt í lagatextanum.

Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði eru engin mál eru jafnviðkvæm og vandmeðfarin og forsjármál. Ég get heils hugar tekið undir að verulegur vafi er á hvort ónáða eigi dómstóla með því að ákveða forsjá. Árið 1992 ákvað löggjafinn hins vegar að láta dómstóla sjá um forsjármál og fyrst lögin segja til um það tel ég algerlega nauðsynlegt að þeir geti líka dæmt sameiginlega forsjá. Stundum er það nánast hendingu háð hvort móðirin eða faðirinn fær forsjána í forsjármáli. Þau eru hnífjöfn og börnin eru jafntengd þeim. Sem lögmaður fæ ég stundum á tilfinninguna að varpað sé hlutkesti um forsjána.

Meðan löggjöfin um að dómstólar ákveði forsjá er fyrir hendi skulum við heimila þeim að dæma sameiginlega forsjá. Ég skal hins vegar gjarnan taka þátt í að gjörbylta þessu kerfi og taka t.d. upp sáttameðferð. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um að langbest sé að leysa forsjármál með samningi og sátt.

Það er slæmt að dómari skuli ekki hafa heimild til að leysa forsjármál með sameiginlegri forsjá því að sú niðurstaða er eina niðurstaðan þar sem hvorugt foreldrið vinnur. Faðirinn og móðirin eru skikkuð með dómi til að annast barnið sitt. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi vinnur alltaf annað hvort móðirin eða faðirinn. Við vitum öll, sérstaklega þau okkar sem koma nálægt dómstólum, hvaða þýðingu það hefur að vinna í dómsmáli. Sá sem það gerir er heppinn og fær aukin völd. Það sama á sér stað þegar dómur fellur í forsjármálum og dómarinn hefur ekki getað dæmt sameiginlega forsjá jafnvel þótt hann hefði talið það æskilegast.

Það er líka rétt sem hv. alþingismaður Kolbrún Halldórsdóttir sagði. Vissulega er ekki hægt með lögum að sjá fyrir öll þau tilvik sem upp koma í forsjárdeilum en löggjöfin sem við höfum sett leggur meginlínurnar. Það er einu sinni svo í lífinu að við getum ekki séð allt fyrir og lögfest viðbrögð við öllu sem gerist. Við þurfum því að setja meginreglur sem hafa það eitt að markmiði þegar kemur að börnum að tryggja þeim sem jafnastar samvistir við báða foreldra þegar þeir eru hæfir og góðir sem slíkir.