135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:01]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og meðflutningsmönnum hennar fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Ég held að það sé hollt og nauðsynlegt fyrir okkur alþingismenn að huga að breytingum. Mér finnst gallinn á frumvarpinu sá að það gengur ekki nógu langt og tekur ekki nógu mikið á þeim sérstöku kjörum sem alþingismenn sköpuðu sér, ekki bara alþingismenn heldur ekki síður ráðherrar, varðandi eftirlaun. Reyndar er ekki minnst á það í þessu frumvarpi að ráðherrar sem hafa tekjur af skriftum fá skattafslátt, þ.e. skerðast ekki vegna tekna sem, þeir hafa af ritstörfum. Því atriði er nauðsynlegt að taka á og breyta.

Greinargerð frumvarpsins endar þessum orðum, hæstv. forseti:

„Til að forðast að málið lendi í sjálfheldu málalenginga á grundvelli formsatriða, svo sem tengsla eignarréttarákvæða við löggjöfina frá 2003, er gert ráð fyrir að áunnin réttindi samkvæmt hinum umdeildu lögum skuli í engu skert.“

Þetta er auðvitað ekki það sem almenningur í landinu vill eftir þær miklu umræður sem hafa verið um þessi sérkjör, þ.e. eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Ég tel þess vegna að a.m.k. þurfi að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið eða jafnvel nýtt frumvarp sem tekur á þessum sérkjörum. Við þurfum að fá traust fólksins á Alþingi og leggja okkur fram um að almenningur hafi trú og traust á störfum alþingismanna. Ég held að þetta sé það fyrsta sem við eigum að leggja áherslu á til að vinna traust almennings í landinu og virðingu fyrir Alþingi.