135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:17]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þetta mál og vekja máls á lífeyrisréttindum þingmanna og ráðherra.

Kvartað hefur verið undan því að sjálfstæðismenn taki ekki þátt í umræðunni og ég hlýddi á það. Ég er sjálfstæðismaður og nú tek ég sem sagt þátt í umræðunni og hef gert það mörgum sinnum áður. Ég er eini þingmaðurinn sem ég veit til, frá því að ég kom inn á þing 1995, að hafi flutt fullbúið frumvarp um það að menn skuli njóta lífeyriskjara eins og kjósendur almennt, ekki eins og opinberir starfsmenn heldur eins og kjósendur almennt. Það náði ekki lengra en inn í nefnd þannig að það var ekki mikið rætt.

Það hefur löngum tíðkast á Íslandi að dulbúa tekjur, fólk vill yfirleitt sýna lægri tekjur en það hefur. Í kjarasamningum er það alveg viðurkennt sport að dulbúa tekjur. Ef einhver kemur í sjónvarpið og segist hafa þetta mikið í dagvinnulaun trúi ég því aldrei — aldrei, af því að það er yfirleitt eitthvað á bak við það, sérstaklega ef það er foringi stéttarfélags, að dagvinnulaunin séu þessi eða hin. Þá hlusta ég bara og hugsa eitthvað allt annað.

Menn eru alltaf að dulbúa tekjur og fela. Frumvarp til laga um kjararáð var rætt fyrir ekki löngu síðan, á löggjafarþinginu 2005–2006. Það kom inn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem þá hét, en ég var formaður þeirrar nefndar. Ég lagði þá áherslu á að upplýst yrði hvers virði þau réttindi eru sem þingmenn hafa. Það stendur í nefndarálitinu, og ég vona að menn muni það, þeir sem sátu í nefndinni, að það var að mínu frumkvæði. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Í öðru lagi er lögð til breyting á 4. mgr. 9. gr. þannig að kjararáð skuli ekki aðeins taka tillit til kvaða og hlunninda sem fylgja starfinu heldur leggja mat á verðmæti þessara atriða, t.d. lífeyrisréttinda og þess starfsóöryggis sem fylgir t.d. þingmannsstarfi. Slíkt mat auðveldar raunhæfan samanburð á launum þingmanna og annarra í þjóðfélaginu.“

Kjararáð á sem sagt að sýna það í krónum og aurum hvers virði þau réttindi eru sem þingmenn njóta þannig að þessum feluleik verði hætt alla vega hvað varðar þingmenn.

Þegar ég flutti frumvarp mitt á 120. þingi, á þskj. 79, lagði ég til að þingmenn nytu lífeyriskjara eins og almennir lífeyrissjóðir gera ráð fyrir, eins og almenningur í landinu, ekki B-deildarfólkið í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem er með óskaplega góð lífeyrisréttindi og hér er gert ráð fyrir að þingmenn eigi að njóta. Ég hugsa að sumir þingmenn muni hækka í lífeyri við þetta frumvarp.

Ég lagði sem sagt til að þeir nytu lífeyrisréttinda eins og umbjóðendur þeirra, kjósendur þeirra, njóta svona almennt, fólkið sem er í almennu lífeyrissjóðunum, fólkið sem er í A-deild LSR. Ég gerði ráð fyrir því að þetta yrði sýnt í launum þingmanna, þau yrðu hækkuð sem því næmi þannig að það kæmi í ljós hvaða laun þeir raunverulega hefðu. Ég veit ekki um einn einasta þingmann, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu, í engum flokki, hvorki í Sjálfstæðisflokki né öðrum flokkum, sem hefur flutt frumvarp til laga um þetta misrétti. Það er dálítið harkalegt að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekkert gert í málinu. Ég er þó alla vega í þeim flokki.

Það er merkileg staða hjá opinberum starfsmönnum, frú forseti. Ráðherrar og hæstaréttardómarar njóta óskaplega góðra lífeyrisréttinda og væri fróðlegt að fá yfirlit yfir það hvaða lífeyrisréttinda sumir njóta. Hæstaréttardómarar voru á tímabili bæði með laun og lífeyrisréttindi. Ekki mátti skerða launin þeirra eftir að þeir hættu að starfa.

Svo er það fólkið í B-deildinni. Þegar aðlögunarsamningarnir stóðu hér á Alþingi barðist ég eins og ljón fyrir því að opinberir starfsmenn gætu valið annaðhvort að vera með lág dagvinnulaun, eins og þeir voru með, og góð lífeyrisréttindi eða há laun og venjuleg lífeyrisréttindi eins og í verkamannalífeyrissjóðum. Hér eru formenn verkalýðshreyfingar sem þekkja þau lífeyrisréttindi. Nei, það mátti ekki gera, þeir fengu nefnilega hvort tveggja, hærri laun, aðlögunarsamninga og lífeyrisréttindin góðu. Afleiðingin er sú að skuldbinding B-deildar LSR hefur vaxið um hundruð milljarða, hún hefur vaxið meira en söluverð Landsbankans, Búnaðarbankans og Símans, vaxið miklu meira en einkavæðing allra ríkisfyrirtækja hefur gefið ríkissjóði. Þeir hirtu ríkisfyrirtækin og ég er viss um að skuldbindingin hefur vaxið meira en sem nemur verðmæti Landsvirkjunar. Þeir eru búnir að hirða öll ríkisfyrirtækin, lífeyrisþegarnir í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Hverjir skyldu borga þetta? Nú, hinir sem eru í almennu lífeyrissjóðunum. Þeir borga þetta að sjálfsögðu með sköttum sínum. Skuldbindingin er gífurleg, hún er svo stjarnfræðileg að ég ætla ekki að reyna að túlka það fyrir hv. þingmönnum.

Svo er það fólkið sem er í A-deildinni. Það hefur reyndar dálítið góð réttindi, iðgjaldið er 15,5%, það er lægra hjá almennu sjóðunum og þar af leiðandi hefur fólkið hærri réttindi. En það er einn munur á, réttindin eru föst en iðgjaldið breytilegt hjá ríkinu. Ef vextir skyldu nú lækka — sem allir vona — þarf ríkið að fara að hækka iðgjaldið upp úr öllu valdi, þ.e. hinir borga áfram, þ.e. skattgreiðendur sem eru í almennum sjóðum, sjóðum sem hafa enga bakábyrgð. Ef vextirnir lækka og þeir geta ekki staðið undir skuldbindingum sínum er rétturinn skertur. Það er ekkert annað hægt að gera.

Það merkilega er að það eru líka til ríkisstarfsmenn sem hvorki eru í A-deild né B-deild, sem eru t.d. í Lífeyrissjóði Eflingar. Það eru því til þrjár tegundir af ríkisstarfsmönnum. Þeir eru að bera saman launin sín alla daga en það er ekkert að marka það því að lífeyrisréttindin eru þvílíkt verðmeiri hjá B-deildinni en í A-deildinni og þeirra lífeyrisréttindi eru aftur verðmeiri en hjá almennu sjóðunum. Ég held að mjög brýnt sé að menn fari nú að ræða þetta og ég ætla einmitt að nota tækifærið hér.

Frumvarpið frá 2003 hefur verið gagnrýnt og ég lenti í ákveðnum vanda þegar ég átti að greiða atkvæði um það mál, ég viðurkenni það. Ég greiddi því atkvæði vegna þess að ákveðin stöðlun var í lífeyrisréttindum þingmanna sem gerði auðveldara að breyta þeim seinna yfir í almenn réttindi hjá almennu lífeyrissjóðunum og auk þess voru réttindi þingmanna pínulítið skert vegna þess að iðgjaldið var hækkað úr 4% í 5%. Í heildina voru lífeyrisréttindi þingmanna skert með því frumvarpi og ég gat alveg tekið undir það. Svo voru einstakir aðilar sem fengu mög góð lífeyrisréttindi í því, formenn stjórnmálaflokkanna o.s.frv.

Það hefur verið gagnrýnt að ýmsir aðilar, samkvæmt lögunum frá 2003, starfi jafnframt því að taka lífeyri, þeir sem sagt haldi áfram að starfa og taki lífeyri áfram. Ég er alveg hlessa á þeirri umræðu. Þetta hefur verið við lýði hjá opinberum starfsmönnum síðan 1920 þegar Lífeyrissjóður presta var tekinn upp. Þeir sem eru í B-deildinni hafa mátt starfa og taka lífeyri. Menn þurfa því að taka á vandanum hjá opinberum starfsmönnum í heild sinni.

Ég er mjög ánægður með það frumvarp sem hér um ræðir vegna þess að það vekur upp umræðu um lífeyrismál. Ég mundi hins vegar ekki fallast á það, og ég er ekki viss um að ég greiði því atkvæði, vegna þess að það bætir stöðu sumra þingmanna og neglir þau niður, að þeir fái lífeyrisréttindi eins og opinberir starfsmenn, þá væntanlega eins og í B-deildinni. Reyndar er ekki neitt talað um það í greinargerðinni eða yfirleitt.

Ég vil að hv. þingmenn fari að taka sér tak, sérstaklega eftir að Kjaradómur fer nú að nefna hvers virði þessi lífeyrisréttindi séu. Þá vita menn hvað þeir hafa í laun. Þeir vilja þá kannski taka þau út sem laun og hafa venjuleg lífeyrisréttindi eins og fólkið í landinu.