135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

lagarammi í orkumálum.

[15:28]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í fréttum af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina er m.a. haft eftir iðnaðarráðherra að Framsóknarflokkurinn hafi skilið þannig við lagarammann í orkumálum að ekki séu nokkur tök á að koma í veg fyrir að einkaaðilar kaupi sig inn í samfélagsleg orkufyrirtæki. Enn fremur er þar sagt að stjórnvöld geti ekki haft nein áhrif á tímasetningar framkvæmda, hvar þær eru staðsettar, t.d. miðað við markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnuð, búsetuskilyrði og félagsleg lífsgæði.

Nú er kunnara en frá þurfi að segja að Samfylkingin lofaði í aðdraganda síðustu alþingiskosninga stóriðjustoppi eins og það var kallað og við hljótum þess vegna að velta fyrir okkur hvernig Samfylkingin ætlar að efna þessi kosningaloforð sín. Í ummælum iðnaðarráðherra á þessum fundi er gefið í skyn að ríkisvaldið hafi engin tæki til að taka á þessu máli eða koma fram pólitískum vilja sínum. En sannleikurinn er auðvitað sá að ríkið á til að mynda Landsvirkjun og getur væntanlega beitt stöðu sinni á vettvangi Landsvirkjunar til að hafa áhrif á áform hennar. Starfs- og virkjanaleyfi eru á hendi ríkisins þannig að væntanlega getur ríkisvaldið komið fram markmiðum sínum í gegnum það hvernig hún afgreiðir starfs- og virkjanaleyfi.

Það eru til skipulagsleg tæki í skipulagslögum, svo sem landsskipulag, landnýtingaráætlanir o.s.frv. Það var mikið talað um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það eru lög um losun gróðurhúsalofttegunda, Kyoto-samningar o.s.frv. Tækin sem ríkið hefur eru mörg og við hljótum þess vegna að spyrja: Hvernig ætla Samfylkingin og ráðherrar hennar að standa við kosningaloforð eða stendur ekki til (Forseti hringir.) að stöðva þessa stóriðjuuppbyggingu sem iðnaðarráðherra segir stjórnlausa?