135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:04]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi bæta því við að ég tel, reyndar hefur það komið fram í dómum Hæstaréttar, að dómstólar telja sig þess bæra að leggja mat á útgáfu bráðabirgðalaga og hvort tilefni hafi verið til. Í öðru lagi tel ég að alþingismenn geti lagt mat á það líka hver fyrir sig.

Ég skil svör hæstv. forsætisráðherra þannig að ríkisstjórnin hafi ákveðið að standa að útgáfu þessara laga án þess að kanna sérstaklega afstöðu þingmanna sinna. Það finnst mér lakara. Kannski má segja að það sé alvarlegt í ljósi þess sem er í húfi, eins og hæstv. ráðherra lýsti réttilega, að hafi bráðabirgðalögin ekki þingmeirihluta þá situr ríkisstjórnin ekki lengur. Með því að setja bráðabirgðalög er þingmönnunum stillt upp frammi fyrir þeirri niðurstöðu, annaðhvort standa þeir með ríkisstjórninni eftir á eða hún er fallin. Ég tel að það eigi ekki að standa þannig að málum.

Ég tel reyndar að þetta mál hefði farið vandræðalaust í gegnum þingið ef það hefði verið kvatt saman. Ég held reyndar að ekki hefði verið mikill ágreiningur um það í ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir þá. Þess vegna er ég hissa á að ríkisstjórnin skuli ekki hafa kvatt þing saman. Ég er ósammála því sem kom fram í skýringum viðskiptaráðherra við 1. umr. málsins að málið hefði ekki verið nógu brýnt til að kveðja þingið saman. Það finnst mér meginspurningin til hæstv. forsætisráðherra: Telur ríkisstjórnin að hún eigi að beita bráðabirgðalagavaldinu þannig, að nota það til að setja lög sem eru ekki nógu brýn til að leggja fyrir þingið?