135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

131. mál
[16:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það hefði ekki sakað að hæstv. fjármálaráðherra hefði fylgt þessu máli úr hlaði með aðeins ítarlegri reifun á bakgrunni þess og þeim hagsmunum sem þar eru í húfi en e.t.v. upplýsir hæstv. ráðherra okkur betur um það á eftir. Ég hef a.m.k. fullan hug á að spyrja hann aðeins út í það.

Þetta varðar skattframkvæmd eða hvernig til hefur tekist í sambandi við skattgreiðslur af launum erlendra starfsmanna sem tóku að streyma inn í landið í miklum mæli í tengslum við stórframkvæmdirnar á Austurlandi fyrst og fremst þótt vissulega séu angar þessa máls víðar til staðar eins mikil og umsvif erlendra starfsmannaleigna og eins mikið og orðið er um starfsmenn af erlendum uppruna hér, bæði tímabundið og til lengri tíma litið.

Þetta tengist þó eðli málsins samkvæmt einkum og sér í lagi starfsfólki sem kemur til skemmri tíma inn í landið, sest hér ekki að heldur er ráðið inn á þessum leigukjörum sem hafa vandkvæði í för með sér, eins og komið hefur á daginn í sambandi við skattskil svo ekki sé minnst á allar aðrar hliðar þeirra mála sem lúta að aðbúnaði og réttindum fólks og hvernig með það allt saman hefur verið farið. Þetta höfum við kallað félagsleg undirboð og sannarlega hafa þau verið stunduð í stórum stíl í tengslum við þetta.

Það sem mér finnst sögulega skemmtilegt — ég get ekki annað en látið eftir mér að rifja aðeins upp samskipti mín við fjármálaráðherra, núverandi og fyrrverandi, í tengslum við þetta mál — er að hér kemur nú fjármálaráðuneytið og viðurkennir að málin voru ekki í því góða lagi og ekki í því formi og fari sem ráðuneytið hafði engu að síður þráfaldlega haldið fram hér á Alþingi, að hér væri ekki við nein vandamál að etja, að skattgreiðslur af launum erlendra starfsmanna á þessum ráðningarkjörum mundu skila sér og engin sérstök vandamál væru uppi því samfara.

Ég var í þeim hópi sem sýndist strax í byrjun að ástæða væri til að ætla að verulegar brotalamir væru í því að þetta erlenda starfsfólk væri rétt skráð inn í landið og tæki að greiða skatta til bæði ríkis og sveitarfélaga af launum sem hér væri aflað með eðlilegum hætti. Það kom auðvitað á daginn og lengi vel var það þannig að sveitarfélögin sem í hlut áttu sáu lítið af útsvarstekjum frá hundruðum erlendra starfsmanna sem voru þó sannarlega við störf og fengu greidd laun, voru hins vegar ekki skráðir eðlilega inn í landið, voru á svokallaðri utangarðsskrá eða hvað það nú allt saman var.

Þegar við bættist að fyrir lá að stór hluti þessara erlendu starfsmanna var ráðinn af erlendum starfsmannaleigum sem tóku við einni greiðslu frá verkkaupa og greiddu síðan starfsmönnunum laun inn á bankareikninga erlendis mátti öllum ljóst vera að það gæti orðið handleggur að tryggja eðlileg skil á opinberum gjöldum, staðgreiðslusköttum, til ríkisins og eftir atvikum sveitarfélaganna.

Ég leyfði mér því að spyrja um þetta strax á 130. löggjafarþingi, lagði fyrirspurn með beiðni um skriflegt svar fyrir þáverandi hæstv. fjármálaráðherra sem mun vera núverandi hæstv. forsætisráðherra. Á þskj. 821 er svar ráðherrans við þessum fyrirspurnum mínum og reyndar hv. þm. Jóns Bjarnasonar um skattgreiðslur í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þar var spurt að ýmsu sem að þessu laut og fimmta spurningin var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver eru helstu álitamál og vandamál sem uppi eru eða upp kunna að koma að mati fjármálaráðuneytisins í sambandi við skattalega meðferð mála í fyrrgreindum tilvikum og tengd umsvifum vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar í heild?“

Og ráðuneytið svaraði skýrt og skorinort:

„Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna annarra framkvæmda af þessari stærðargráðu.“

Þetta svar þótti mér merkilegt í ljósi þess sem þegar lá fyrir um að misbrestur hefði orðið á eðlilegri skráningu þessa starfsfólks inn í landið og þá þegar voru orðnar uppi miklar deilur um að það fengi ekki umsamin kjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Aðbúnaður þess var neðan við allar hellur, eins og kunnugt er, á fyrstu missirum framkvæmdanna eystra og þar mætti áfram telja.

Ráðuneytið bar sig svona vel engu að síður og skaut sér sérstaklega á bak við ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra frá 27. ágúst 2003. Þar var í raun gengið út frá því að þetta bréf skattstjóra væri orðið lög í landinu. Ég tek fram að ég tel að ríkisskattstjóri hafi fyrir sitt leyti reynt eins og kostur var að tryggja að framkvæmdin yrði með eðlilegum hætti þótt auðvitað megi segja að fjölmargir eftirlitsaðilar og stjórnvöld almennt hafi verið ákaflega vanbúin til að takast á við umfang þessara framkvæmda og þær miklu breytingar sem þetta hafði allt saman í för með sér, að maður tali ekki um hjá fámennum stofnunum eystra.

Ég var undrandi á þessu og mér fannst annað blasa við en að framkvæmdin væri svona gjörsamlega vandalaus og hnökralaus eins og ráðherra þarna svaraði skriflega á árinu 2003. Undir vor á sama þingi, 130. löggjafarþingi, lagði ég fram munnlega fyrirspurn, enn til sama hæstv. ráðherra. Þann 5. maí 2004 er spurningu minni, svohljóðandi, svarað:

„Er ráðherra enn þeirrar skoðunar að engin sérstök vandamál séu uppi, né líkleg til að koma upp, hvað varðar skattskyldu, tilhögun skattgreiðslna og skattskil vegna virkjunarframkvæmdanna við Kárahnjúka?“

Ráðherra brást satt best að segja ekkert óskaplega vel við og talaði um að það væri undarleg þráhyggja af mér að vera að spyrja svona. Í svari hans, sem ég ætla ekki að rekja frekar, var sem sagt endurtekið að þetta væri allt í hinu fínasta lagi. Annað var nú alltaf að koma fram í fréttum. Hinir erlendu farandverkamenn, sem má gjarnan tala um í þessu sambandi, voru unnvörpum farnir að hverfa úr landi á nýjan leik án þess, mér vitanlega, að hafa borgað eina einustu krónu, hvorki til ríkis né sveitarfélaga á þessum tíma, t.d. vinnuaflið sem kom til að reisa vinnubúðirnar og var hér í skamman tíma, tvo til þrjá mánuði, margir hverjir aldrei eðlilega skráðir inn í landið.

Þess vegna lagði ég á 131. löggjafarþingi í þriðja sinn fram fyrirspurn og gaf nú ráðuneytinu færi á að svara á nýjan leik sem það gerði á þingskjali 416. Og 8. töluliður þeirrar fyrirspurnar, sem var mjög ítarleg, ég spurði um hin tæknilegu atriði þessa máls, og einnig um tekjurnar og hvernig skattskilin hefðu þá orðið, var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að engin sérstök álitamál eða vandamál hafi komið upp, né séu líkleg til þess, í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. svar við fyrirspurn á þingskjali 821 á 130. löggjafarþingi?“

Og hvernig var svarað? Með leyfi forseta:

„Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál uppi í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu.“

Sem sagt, einu og hálfu ári síðar er sama, innan gæsalappa, að mínu mati vitlausa, svarið endurtekið. Þannig að ég gerði fjórðu tilraunina. Á 132. löggjafarþingi spurði ég enn einu sinni þáverandi fjármálaráðherra, sem hefur þá verið orðinn sá sem nú situr í þeim stóli. Þetta var munnleg fyrirspurn, með leyfi forseta:

„Ég ítreka því enn spurningu mína“ — og hér hefur forseti hringt sem bendir til þess að ég hafi þá verið búinn með ræðutímann — „til fjármálaráðherra: Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að þarna séu engin sérstök álitamál eða vandamál uppi?“

Það var eins og við manninn mælt að enn var svarað, samanber þessar umræður 23. nóvember 2005, með leyfi forseta:

„Að mati fjármálaráðherra eru engin sérstök álitamál eða vandamál uppi í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu.“

Þannig var nú það, virðulegi forseti.

En nú kemur hér frumvarp. Og af hverju er það? Jú, það er vegna þess að mörghundruð milljónir króna vantar upp á að skattar hafi skilað sér eða muni, enn sem komið er að minnsta kosti, skila sér með eðlilegum hætti af launatekjum þessa erlenda vinnuafls eða erlenda starfsfólks sem þarna á í hlut. Einfaldlega vegna þess að Hæstiréttur hefur dæmt það svo að sú túlkun ríkisskattstjóra og ráðuneytis, að verkkaupinn skuli í þessu tilfelli teljast launagreiðandi, haldi ekki.

Þar með er alveg ljóst að þeir fjármunir allir sem ætlunin var að láta verkkaupann, Impregilo, standa skil á eða aðra eftir atvikum, þeir ganga til baka og þá kemur upp spurningin — og vil ég gjarnan að hæstv. ráðherra leggi eyrun við: Er þá hægt að endurtaka svarið einu sinni enn, að þetta hafi í fyrsta lagi gengið fyrir sig með eðlilegum hætti og verið vandkvæða- og hnökralaust? Ég held að því sé nú sjálfsvarað. Og ég ætla ekkert að elta ólar við það meir. Ég tel að ég hafi rekið ráðuneytið þannig heim í þessu máli að það verði ekki betur gert.

En ég spyr hins vegar: Ætlar ríkið að reyna að ná þessum peningum engu að síður og hvernig ætlar það að fara að því? Ætlar hæstv. fjármálaráðherra sjálfur til Portúgals? Ætlar hann að liggja þar og reyna að ná þessum fjármunum af þeim verkamönnum sem sneru til síns heima, svo dæmi sé tekið?

Er þetta ekki til þess að láta sér að kenningu verða? Ég held að það væri það skásta sem út úr þessu kæmi, að menn virkilega viðurkenndu það, horfðust í augu við það, að menn voru illilega vanbúnir að takast á við þessar aðstæður. Gagnrýni var ævinlega tekið illa. Það var lagt þannig út að maður væri hálfgerður skemmdarverkamaður að vera að móast eitthvað við gagnvart þessu þjóðþrifamáli, sem menn töldu vera. Það var satt best að segja með ólíkindum hvernig því var tekið hér í þingsölum er maður leyfir sér að spyrja út í eða gera athugasemdir við hluti af þessu tagi.

Þetta á ekki bara við um hina skattalegu hlið mála, ef út í það væri farið. Ég skal ekki lengja tímann hér með því að fara yfir það. En auðvitað má segja meira og minna hið sama um flest svið stjórnsýslu og eftirlits sem þarna heyra undir. Þetta var allt meira og minna vanbúið og koðnaði eiginlega niður í höndunum á mönnum. Stjórnvöld sáu aldrei sóma sinn í því að búa eðlilega að þeim aðilum, hvort heldur var lögregla, heilbrigðisaðilar, hollustu-, brunavarnir eða annað slíkt, sem allt í einu fengu risavaxin verkefni í sínar hendur.

Ýmsir reyndu virkilega að leggja eitthvað á sig til að bæta úr ófremdarástandinu hvað varðaði t.d. aðbúnað og eftirlit með því að menn hefðu réttindi til að stunda þá vinnu sem þeir voru að vinna, að stjórna ökutækjum eða annað í þeim dúr. En ég óttast að eftir því sem leið á framkvæmdartímann og vegna sinnuleysis stjórnvalda hafi menn hálfpartinn gefist upp, misst móðinn. Undir lokin var farið að yppa öxlum og segja: Þetta er hvort sem er að verða búið. Það hefur eiginlega ekkert upp á sig að vera að ergja sig yfir þessu meir þó svo reglur um réttindamál, öryggis- og aðbúnaðarmál o.s.frv. séu þverbrotnar.

Þessi ferill er auðvitað alveg rosalegur. Það liggur fyrir að þarna hafa átt sér stað alveg gríðarleg brot á þeim reglum sem við viljum að séu í heiðri hafðar og varða öryggi, aðbúnað, launakjör og annað sem starfsaðstæðum tengjast. Alveg fram undir lok þessara framkvæmda urðu leiðindauppákomur af því tagi að það urðu fjöldaveikindi og ýmsir hlutir og vísa ég til fréttaflutnings og fjölmiðlaumfjöllunar þar um.

En við erum hér að ræða þennan starfsmannaþátt og ég óska eftir því í lokin að fjármálaráðherra geri grein fyrir því hvaða fjármunir eru hér í húfi. Hversu há er endurgreiðslukrafan sem verktakar eiga á ríkið vegna þess að þeim var ætlað að standa skil af sköttum sem verkkaupum sem þeim ekki bar skylda til, samanber dóm Hæstaréttar? Hvernig horfir með að endurheimta þá fjármuni og hvernig hyggst ráðuneytið fara í þau mál? Ég held að hæstv. ráðherra geti ekki látið eins og þetta sé eitthvert sárasaklaust smámál, tæknilegt leiðréttingamál sem enga umtalsverða hagsmuni varðar. Það er ekki þannig. Og ég held að í raun og veru þyrftu menn að gera þessa sögu alla saman upp til þess að reyna að læra af henni, líka hvað varðar stöðu sveitarfélaganna við þessar aðstæður og að þau fái þó að minnsta kosti þær tekjur sem þeim ber af umsvifum og launagreiðslum á sínu svæði á meðan þær standa, til þess að þau séu þá líka betur fær um og betur í stakk búin til að annast um þá hlið mála sem að sveitarfélögunum snýr og tengist þeirra lögbundnu skyldum og verkefnum vegna íbúa sem eru, þó tímabundið sé, innan marka sveitarfélaganna eins og að sjálfsögðu hefur átt við undanfarin ár á Austurlandi og víðar þar sem erlent vinnuafl, erlendir starfsmenn, á tímabundnum ráðningarkjörum koma við sögu.