135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

131. mál
[17:14]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég get alveg unnt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hælast aðeins um út af þessu máli. Mér finnst hann gera það af hæfilegri hógværð því að upp hefur komið að túlkun ráðuneytisins og ríkisskattstjóra á þessu máli reyndist ekki vera rétt. En þó er um álitamál af þeim toga að ræða að ég held að ég muni það rétt að undirréttardómar hafi fallið ráðuneytinu í vil. En það dugir ekki að deila við dómarann þegar um Hæstarétt er að ræða. Það verður auðvitað ekki gert og því nauðsynlegt að gera þær breytingar á lögunum sem hér um ræðir og væntanlega deila menn ekki um það.

En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr hvað verði gert til þess að ná peningunum. Við höfum óskað eftir liðsinni ríkislögmanns í því, sem gætir alla jafna hagsmuna ríkisins í efnum sem þessum. Ég kann út af fyrir sig ekki skil á því nákvæmlega hvernig það verður gert. En samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda eru það um það bil 400 millj. kr. sem um er að tefla.

Ég held að það sé ekki ráðlegt að ég fari að reyna að gera frekari grein fyrir því hvernig að þessu máli yrði unnið. En auðvitað ber að hafa í huga að við höfum samninga við Portúgal um slíka hluti þannig að á það gæti hugsanlega reynt ef málin fara á þann veg. En þó kannski ekki þannig að ráðherra þurfi sjálfur að liggja úti í Portúgal vegna málsins.