135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:57]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að ég teldi að hv. þm. Bjarni Harðarson hreyfði góðu máli þó að ég hefði ákveðnar athugasemdir við það sem ég tel hafa verið málefnalegar og þá innlegg í frekari umræðu um þetta mál. Ég er ekki að biðja um að þorskveiði eða hafrannsóknir eða önnur mál séu afgreidd í þessari umræðu. Eina sem ég er að segja er að hv. þingmaður sá ekki ástæðu til að ræða kvótakerfið í samhengi við stöðu hafnanna. Þess vegna stóð ég upp og flutti þessa seinni ræðu mína. Það er hreinlega ekki hægt að ræða stöðu hafna og loka augunum á allt annað. Hvernig á maður að greina vandamál nema taka öll þau atriði sem varða hafnirnar inn í sama pakka? Það erum við að gera, við erum að ræða stöðu landsbyggðarinnar í heild út frá þessu vandamáli hafna. Það er mjög eðlileg og skynsamleg aðferð í allri umræðunni að skoða alla þætti sem maður sér.

Ég hefði getað rætt miklu fleira varðandi stöðu hafnanna, eins og skuldir sjávarútvegsins sem eru að sliga sjávarútveginn og hafa verið hér til umræðu og fjöldamörg önnur atriði. En þegar landsbyggðin stendur jafnveikt og raun ber vitni varðandi menntun, menningu, samgöngur og fjarskipti þá verður maður að taka þetta inn í samhengið vegna þess að höggið á hafnirnar er eitthvað sem landsbyggðin þolir ekki. Einhvern tíma kemur að því að dropinn fylli mælinn í stöðu landsbyggðarinnar og hugsanlegt er að staða hafnarsjóða sé sá dropi ef fram fer sem horfir að þessar hafnir sjávarbyggða í landinu stefni í gjaldþrot eins og við virðist blasa.