135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:41]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem fram hefur farið um frumvarpið um háskóla á Ísafirði. Hér hafa verið fluttar 20 ræður og andsvör sem er býsna gott í þingmannamáli og stuðningur við málið hefur komið úr öllum flokkum. Ég held að það endurspegli í raun almennan stuðning sem orðinn er við þetta mál, hefur farið vaxandi á undanförnum fjórum árum, nær inn í alla stjórnmálaflokka, er örugglega meirihlutastuðningur fyrir í þremur þeirra og líklega mjög mikill stuðningur í báðum stjórnarflokkunum eins og komið hefur fram. Þess vegna er ég tiltölulega bjartsýnn á að málið muni fá framgang í vetur og að í framhaldinu verði efnt til háskólastarfs á Ísafirði.

Við flutningsmenn teljum best að það verði sjálfstæður skóli. Við erum sammála þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram um nauðsyn þess að eiga samstarf við aðra háskóla innan lands og hugsanlega erlendis eftir atvikum til að byggja upp þetta nám, rétt eins og Háskólinn á Akureyri var byggður upp í mjög nánu samstarfi við háskólasamfélagið á höfuðborgarsvæðinu.

Það er hægt að hugsa sér fleiri leiðir en þá sem frumvarpið hefur að geyma eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson og Illugi Gunnarsson hafa báðir bent á. Við flutningsmenn erum opnir fyrir því. Við leggjum hins vegar áherslu á að forræði málsins sé í höndum manna sem geti stýrt þróuninni þannig að henni verði stjórnað heima í héraði af þeim sem þar eru í forsvari og veljast til þess en ekki af forsvarsmönnum annarra skóla. Skurðpunkturinn í þróun málsins verður einfaldlega að vera þar, forræði málsins verður að vera á hendi manna sem eiga að bera fram þessa stofnun eða þennan skóla á Ísafirði.

Það er ekki gott að sjá fyrir hvernig þróunin kann að verða. Það er hægt að setja einhverja meginlínu í stefnu fyrir stofnunina en svo mun það ráðast mikið af þeim mönnum sem veljast til starfa hver þróunin verður. Hún kann að verða mjög óvænt sem við sjáum ekki fyrir í þingsölum, og allt í lagi með það. Við sjáum ekki allt fyrir og það er ekki okkar að stika út allar leiðir nákvæmlega, heldur gera mögulegt að einhverjir geti fetað leiðina. Ég held hins vegar að líklega verði stuðst mikið við rannsóknir á sjávarútvegssviðinu sem hafa verið byggðar upp á undanförnum árum í tengslum við háskólasetrið og ýmsar ríkisstofnanir á Ísafirði. Ég held reyndar að mjög verði horft til umhverfismála í framhaldi af því sem þegar hefur verið gert á Vestfjörðum og hugmyndum sem eru uppi af hálfu heimamanna um rannsóknir á náttúru og lífríki Vestfjarða í ýmsum skilningi, á Hornströndum, atferli og lífi refa. Fleira má nefna sem mönnum hefur orðið tilefni til rannsókna á þessu sviði. Mér finnst líklegast að starfsemin miðist dálítið inn á þessar brautir auk þess að vera auðvitað almennt háskólanám til fyrstu háskólagráðu, a.m.k. á tilteknum brautum, og svo hugsanlega í samstarfi við aðra skóla á öðrum brautum þar sem námsmenn verða færri.

Ég tek undir það sem hér kom fram í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Það var sjónarhorn sem ég hafði bara ekki tekið eftir og gott að fá ábendingu um það. Það er rétt að áherslan á háskólamenntun snertir konur ákaflega mikið. Þær eru orðnar meiri hluti þeirra sem stunda háskólanám og þetta verður konum verulega til framdráttar á þessu svæði eins og annars staðar á landinu þar sem þær eiga greiðan aðgang að háskólamenntun. Ég þakka henni fyrir þessa ágætu ábendingu sem styrkir málið enn frekar.

Ég er líka sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Það er sjálfsagt að skoða formið enda er það aðeins umbúðir en ekki innihald og ef hægt er að komast lengra áfram með gott mál í breyttu formi held ég að ég geti sagt fyrir hönd okkar flutningsmanna að það muni ekki standa á okkur í því. Markmiðin eru alveg ljós og við viljum helst ekki hvika frá þeim. Mér fannst ég heyra það á máli hv. þingmanns að hann tæki undir þau markmið og væri þeim sammála. Kjarni málsins varðandi formið er auðvitað sá að njóta góðs af því sem fyrir er. Ný stofnun á Ísafirði getur verið sterkari ef hún styðst við þær sem fyrir eru í landinu, eina eða fleiri. Það er þá báðum hugsanlega til hagsbóta.

Það er rétt ábending hjá honum að slíkt samstarf getur auðveldað nýjum skóla að fá viðurkenndar prófgráður sem nemendur afla sér í námi á fyrstu árum skólans meðan hann er að festast í sessi. Mér finnst þetta form sem þekkist í Bretlandi að mörgu leyti ákaflega heillandi fyrir fámenna þjóð ef við horfum á það sem hér hefur komið fram hjá sumum ræðumanna, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Jóni Bjarnasyni sem ég man eftir í svipinn, um að við Íslendingar séum fámenn þjóð og skólar hér litlir í alþjóðlegu samhengi, jafnvel Háskóli Íslands. Einhvers konar samstarfsform eða regnhlífarform yfir marga skóla hér á landi, hvort sem þeir eru allir á landsbyggðinni eða það er blandað, er bara hlutur sem menn skoða, sjá hvað mögulegt er í þeim efnum. Það getur styrkt alla skólana. Við eigum ekki að slá hendinni á móti eða loka augunum fyrir því að skoða þann möguleika.

Þá vil ég segja líka að lokum, virðulegi forseti, að ég tek undir áhyggjur hv. þm. Illuga Gunnarssonar af stöðu byggðar á Vestfjörðum. Atvinnugrunnurinn er orðinn svo veikur eftir langvarandi samdrátt á mörgum sviðum, sérstaklega í sjávarútvegi, að það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af framhaldinu. Mér finnst ánægjulegt að heyra frá þingmanni í stjórnarliðinu að hann geri sér grein fyrir þessu og er tilbúinn til að ræða hlutina opinskátt í þeim efnum. Það finnst mér vera málinu til framdráttar því að forsenda einhvers árangurs og skynsamlegra aðgerða er sú að menn viðurkenni stöðuna, geri sér grein fyrir henni eins og hún er og séu tilbúnir að ræða hana opinskátt og einlægt. Það þekkjum við þingmenn kjördæmisins sem höfum farið um Norðvesturkjördæmið í kjördæmavikunni að því miður er uggur í fólki í sjávarbyggðum landsins, sérstaklega á Vestfjörðum þar sem staðan hefur verið erfið lengur en í flestum öðrum sjávarbyggðum landsins. Þar er afar þungt hljóð í fólki, satt að segja, mjög þungt hljóð í fólki. Ég er ekki að segja það að ástæðulausu, heldur einfaldlega vegna þess að það er svoleiðis og það er kannski eins gott að menn átti sig á því, geri sér grein fyrir því og séu þá tilbúnir til að taka ákvarðanir í samræmi við það. Ég heyri að það er vilji allra þeirra sem tóku þátt í þessari umræðu núna að gera sitt til að snúa þróuninni við og finna úrræði sem styrkja grundvöllinn undir búsetu í þessum byggðarlögum.

Að svo mæltu, virðulegi forseti, ítreka ég þakkir okkar flutningsmanna til þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir góðar undirtektir og vonast til þess að uppskeran af tillöguflutningnum og umræðunni komi í ljós fljótlega á nýju ári.