135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

heilsársvegur yfir Kjöl.

21. mál
[18:17]
Hlusta

Guðný Helga Björnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég leggst í sjálfu sér ekki gegn því að gera þá hagkvæmnisathugun sem þessi þingsályktunartillaga kveður á um. Ég vil hins vegar benda á að verði farið í slíka athugun þurfi að skoða þann möguleika að hafa uppbyggingu vegarins þannig að hann nýtist vel þann tíma sem litlar líkur eru á óveðrum á heiðum. Mér finnst algjör óþarfi að byggja hann verulega mikið upp því að því fylgir náttúrlega heilmikið rask og umrót.

Í greinargerðinni sem fylgir með stendur, með leyfi forseta:

„Fyrstu athuganir benda til þess að vetraraðstæður á Kili verði ekki að ráði verri en á fjallvegum á Norður- og Austurlandi.“

Þessi vegarspotti yfir Kjöl er örugglega dálítið mikið lengri en yfir Holtavörðuheiði eða aðrar heiðar á Norður- og Austurlandi. Jafnframt þarf að fara yfir Hellisheiði til þess að komast á þennan veg og hún er nú oft á tíðum ófær samkvæmt útvarpinu. Þeir sem eru á móti þessum vegi tala oft um mengunina af rykinu sem er yfir Kili allt sumarið. Það er náttúrlega sjónmengun að bæta veginn dálítið og breikka þar sem þarf og setja þar slitlag. En það hefði góð áhrif og þá hætti rykmengunin og jafnframt minnkaði slit á bílum. Þá nennti maður kannski að fara þessa fallegu og skemmtilegu leið oftar. Menn ættu að hafa það í huga.

Í sjálfu sér er það mjög góður punktur sem hv. þm. Jón Bjarnason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir nefndu áðan, að leggja meiri áherslu á aðra vegi. Það er náttúrlega mikilvægt að því að ég tel, sem íbúi úti í sveit. Hv. þingmenn hafa kannski séð óhreina bílinn niðri í kjallaranum, það er minn bíll því að ég skrapp heim og það er alveg hræðilegt fyrir okkur sem búum við þessa sveitavegi að vera sífellt á óhreinum bílum og slitnum út af holum. Það er nokkuð sem þarf að laga og þarf að kappkosta að leggja slitlag út um sveitir.

Það var aðallega þetta sem ég vildi nefna, þ.e. hvort þetta þurfi að heilsársvegur og hvort ekki mundi duga að bæta hann að miklu leyti. Svo datt mér í hug, þegar framsögumaður, hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi grænan veg og vænan veg, að þegar Vegagerðin gengur frá vegum setur hún grasfræ meðfram þeim sem ég held að það verði kannski svolítið ljótt að sjá á Kili, þennan veg og svo grænan kafla meðfram honum öllum því að Kjölur er ekki allur gróinn.