135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Árneshreppur.

75. mál
[12:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er afar athyglisvert þegar við ræðum hér málefni Árneshrepps á Ströndum að hæstv. forsætisráðherra skuli segja það og mér virðist það vera skoðun hans að ýmsar af þeim tillögum sem báðir hæstv. ráðherrarnir sem hér hafa talað kalla óraunhæfar, séu með þeim hætti að þær geti gefið fordæmi fyrir önnur sveitarfélög. Það er staðreynd að þó nokkur fjöldi sveitarfélaga er afar illa settur vegna þess hversu illa tengd sveitarfélögin eru netinu sem landsmenn reiða sig á með líf sitt. Það er þannig með Árneshrepp á Ströndum og fleiri fámenn sveitarfélög sem eru afskekkt að þar eru gríðarleg tækifæri sem verða ekki notuð nema vilji ríkisstjórnarinnar komi til. Ég fagna vilja hæstv. iðnaðarráðherra sem kom fram í hans stuttu athugasemd en ég sé ekki að það sé vilji hjá hæstv. forsætisráðherra til að fara í að skoða þær tillögur sem hæstv. ráðherra kallar óraunhæfar. Í þeim felst að mínu mati sköpunarkraftur og það er vilji hjá okkur þingmönnum til að skoða þessi mál frekar. Hæstv. ráðherrar verða að vakna og taka við þeim vilja.