135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

Múlagöng.

158. mál
[14:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og öðrum sem hafa tekið undir fyrirspurnina og komið með innlegg. Fyrirspurnin var lögð fram þar sem það er alveg ljóst að Múlagöng eru ekki inni á samgönguáætlun frá 2007–2010. Ég tel að þau séu, eins og þau eru í dag, í raun og veru barn síns tíma og ekki ásættanleg varðandi öryggi og umferð um þau, hvað þá ef það rætist sem ég held að við vonumst öll til að umferð þar aukist eftir að Héðinsfjarðargöngin koma til sögunnar sem fer að styttast í að verði, árið 2009. Þá verður enn frekar ástæða til að taka Múlagöngin til skoðunar og lagfæra þau og jafnvel fyrir þann tíma því að blindbeygjan Ólafsfjarðarmegin, sú krappa beygja, er auðvitað veruleg hindrun sem þyrfti að skoða alveg sérstaklega.

Hvað varðar Strákagöngin þá nefndi ég þau ekkert sérstaklega því mér var umhugað um að horfa á styrkinguna við Eyjafjörð en stutt göng undir Siglufjarðarskarð er auðvitað það sem við horfum til í framtíðinni og vonandi ekki innan langs tíma. Ég vona líka að það komi til þeirrar stundar í hv. Alþingi að við þurfum ekki að vera í hnútukasti um forgangsröð. Það eru mörg brýn verkefni sem bíða og það segir mér bara það og okkur öllum að fjármagn til vegaframkvæmda, til samgöngugerðar og til gangagerðar hefur verið vanmetið um langan tíma og við verðum að bæta úr því, þetta eru framtíðarsamgöngurnar, þ.e. að gera göng til að stytta vegalengdir og í staðinn fyrir að vera að hengja sig utan í hættulegar fjallshlíðar.