135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stytting vinnutíma.

151. mál
[14:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er gömul saga og ný að við Íslendingar erum garpar þegar kemur að vinnu. Við njótum þess vafasama heiðurs að vinnuvikan hér á landi er miklu lengri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við vinnum nefnilega þjóða mest.

Á heimasíðu Hagstofu Íslands kemur fram að vinnustundir opinberra starfsmanna árið 2006 eru að meðaltali 47,2 stundir á viku. Það er lengsta vinnuvika á meðal opinberra starfsmanna í löndum Evrópu. Þeir sem eru í öðru sæti og koma á eftir okkur eru Bretar sem vinna 41,7 stundir á viku, þ.e. 6,1 stund minna en íslenskir opinberir starfsmenn. Meðaltal 12 landa í Evrópusambandinu eru 38,3 stundir hjá opinberum starfsmönnum, tæpum níu stundum styttri vinnuvika en hjá okkur. Ef við horfum til vinnumarkaðarins í heild vinna Íslendingar að meðaltali 48,5 klukkustundir á viku á meðan flestar Evrópuþjóðir vinna um 42 klukkustundir.

Það er því miður staðreynd að með lengri vinnutíma minnkar framleiðni og hlutfallsleg afköst starfsfólks. Því má draga þá ályktun að framleiðni íslensks vinnuafls sé minni en í löndum þar sem vinnutími er styttri. Því mundi styttri vinnuvika ekki sjálfkrafa leiða til miklu minni afkasta. Starfsfólk yrði trúlega að mörgu leyti öflugra í vinnutíma sínum því að langur vinnudagur er letjandi eins og margir þekkja.

Hæstv. forseti. Við stjórnmálamenn tölum á tyllidögum um fjölskyldupólitík, um gildi þess að fjölskyldan eigi rúman tíma til samverustunda. En því miður er staðreyndin sú að vinnuvikan hér á landi er miklu lengri en gengur og gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Því miður hefur maður á tilfinningunni að við sem þjóð séum að hluta til að gleyma okkur í lífsgæðakapphlaupinu og ég tel að hefja þurfi önnur gildi til vegs og virðingar á ný, m.a. samverustundir fjölskyldunnar. Þar bera stjórnvöld ríka ábyrgð og því hef ég lagt fram fyrirspurn fyrir hæstv. félagsmálaráðherra um hvort hún sé reiðubúin að beita sér fyrir því við gerð næstu kjarasamninga að hið opinbera beiti sér fyrir því að vinnuvikan hér á landi verði stytt í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.