135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:49]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vildi ég gera að umtalsefni það sem hv. þingmaður nefndi um heimkvaðningu fulltrúa í friðargæsluverkefnunum í Írak. Um það starf gildir annað en um önnur störf sem unnin eru á vegum íslensku friðargæslunnar. Þetta er eina starfið innan íslensku friðargæslunnar sem ekki uppfyllir skilmála DAC um borgaraleg störf í þágu friðargæslunnar. Það er eðlismunur á þessu starfi og öðrum störfum og á þeim grundvelli er sú ákvörðun sem tekin var fullkomlega eðlileg.

Hvað varðar hinn sérkennilega kafla í ræðu hv. þingmanns, sem laut að forstjóra Ratsjárstofnunar, verður maður að spyrja sig hvert markmiðið með þeirri ræðu hafi verið. Hægt er að hafa mörg orð um mannaráðningar á vegum Framsóknarflokksins á liðnum árum. Ég hélt satt að segja að þingmenn Framsóknarflokksins hefðu áhuga á að forðast þá umræðu og alla vega hefja hana ekki að fyrra bragði.

Í Ratsjárstofnun er samankomið mikið starfslið og þar eru unnin verkefni sem hingað til hafa fyrst og fremst verið unnin á forsendum bandarískra stjórnvalda og fyrir þau. Þessi verkefni sitja íslensk stjórnvöld uppi með. Það þarf algjörlega að endurhugsa þessa stofnun. Ég þekki það frá gamalli tíð í starfi mínu í utanríkisþjónustunni að höfuðverkefni þessarar stofnunar var að finna nýjan kostnað og réttlæta hann til að geta sent hærri reikninga til bandarískra stjórnvalda. Það var grundvallarmarkmið stofnunarinnar svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það þarf að hugsa þessa stofnun algjörlega frá grunni og til þess þarf að hafa hreint borð og meta verkefni stofnunarinnar út frá íslenskum hagsmunum. (Forseti hringir.)