135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:14]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason vísar til þess hvernig skilvirk utanríkisþjónusta geti verið. Ég hef verulegar efasemdir um að sendiráð Íslands á ýmsum stöðum þjóni nokkrum þeim hlutverkum sem heyra undir skilvirka utanríkisþjónustu. Þá spyr ég, og það er greinilegt að stór hópur þjóðarinnar deilir þeirri skoðun með mér: Væri ekki í ráði, fyrst hæstv. utanríkisráðherra leggur sérstaka áherslu á skilvirka utanríkisþjónustu, að t.d. verði skipuð nefnd frá öllum þingflokkum sem fari yfir það sem raunverulega er gert í sendiráðum og skili skýrslu til þingsins? Þannig að það liggi þá fyrir.

Miðað við það sem ég hef getað kynnt mér varðandi sum þeirra sendiráða sem Ísland hefur sett af stað fyrr og síðar get ég ekki séð að þau þjóni skilyrðum um skilvirka utanríkisþjónustu. Ég tel að peningunum væri betur varið með því að menn, og þess vegna aðrir menn, færu út fyrir landsteinana þegar á þyrfti að halda til þeirra staða og svæða þar sem þörfin er mest. En ekki að menn séu kyrrsettir í ákveðnu landi.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir góð orð um meginatriði ræðu minnar. Ég get ekki séð annað en við séum í öllum aðalatriðum sammála um hvert beri að stefna í utanríkismálum. Áherslur geta verið ólíkar, sérstaklega í sambandi við það sem við höfum rætt hér. En ég þakka (Forseti hringir.) honum fyrir að gefa mér þetta tækifæri.