135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:12]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki muninn á þessum verkefnum þó að annað njóti velvilja DAC en hitt flokkist ekki þar undir. Ég sé ekki að það nægi til að draga fulltrúa okkar út úr Írak. Mér finnst nokkuð hrokafullt að segja að alltaf megi reiða sig á að Framsóknarflokkurinn taki ranga afstöðu. Ég vil minna hæstv. utanríkisráðherra á að formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, hæstv. forsætisráðherra, er sammála Framsóknarflokknum í þessu. Það má þá væntanlega reiða sig á að Sjálfstæðisflokkurinn taki alltaf ranga afstöðu fyrst hægt er að segja þetta um Framsóknarflokkinn.

Ég tel að þessi ákvörðun hafi verið þess eðlis að hún grafi undan framboði okkar til öryggisráðsins og hún hafi verið alröng. Ég vil líka, virðulegi forseti, fá að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um ummæli sem hún lét falla í DV. Ég ætla að fá að vitna beint í textann, virðulegi forseti. Í lok setningar segir hæstv. utanríkisráðherra: „… að við hörmum þennan stríðsrekstur og teljumst ekki aðilar að honum lengur. Við stöndum heils hugar bak við uppbyggingu lýðræðislegs samfélags en ekki með þátttöku í stríðsrekstri.“

Þessi ummæli lætur hæstv. utanríkisráðherra falla í DV í lok september til að réttlæta þá ákvörðun að draga heim eina fulltrúann sem við vorum með í NATO-verkefni, fulltrúa sem Írakar höfðu beðið um til að reyna að koma sér á fætur eftir stríðsástandið sem þar hafði verið. Ég vil fá að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er þetta rétt eftir haft? Sagði hæstv. utanríkisráðherra virkilega við fjölmiðla að þetta verkefni væri stríðsrekstur?