135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

fjármálafyrirtæki.

181. mál
[17:24]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það mál sem við hér ræðum er að mér skilst ákveðin mistök sem hafa orðið í lagasetningu hér á hinu háa Alþingi. Og ég segi hér á hinu háa Alþingi því að það er Alþingi sem setur lög en ekki ráðuneytin. Þetta kannski varpar ljósi á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, að flest frumvörp sem Alþingi samþykkir sem lög eru samin utan Alþingis og nefndirnar hafa oft ekki nægan tíma eða næga þekkingu eða fá ekki nægilega mikinn mannafla til að fara ofan í málin. Þetta er mjög miður vegna þess að það á náttúrlega ekki að gerast að menn geri slík mistök í lagasetningu.

Ég held að það væri brýnt, eins og aðrir hafa svo sem nefnt, að Alþingi komi meira að lagasetningu og lagasmíð þegar verið er að innleiða ályktanir Evrópusambandsins og tilskipanir, þannig að Alþingi sé meira meðvitað um hvað er að gerast og hverju þarf að breyta. Núna kemur þetta eiginlega inn sem pakki af mjög óskiljanlegum texta sem oft þarf að liggja mjög lengi yfir til þess að átta sig á samhengi hlutanna.

Það er einmitt það sem við erum að fjalla um hér, við erum að breyta ákveðnum ákvæðum í frumvarpi um fjármálafyrirtæki sem var sett upp á sínum tíma, ekki fyrir mjög löngu síðan sem tilskipun frá Evrópusambandinu. Ég vil bara taka það fram að mér þykir mjög miður að þessi mistök skuli hafi verið gerð.