135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:32]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil svara hv. þingmanni varðandi spurningu sem hann lagði fyrir okkur flutningsmenn. Hann spurði: Hvaða almennu mannréttindi hafa samkynhneigðir ekki í samfélaginu eins og lögum er háttað í dag?

Svarið við því kom raunar fram í ræðu minni og er einfalt: Það eru tvenn réttindi sem samkynhneigðir hafa ekki. Annars vegar geta þeir ekki kallað samband sitt hjónaband og þar af leiðandi ekki kallað sig hjón. Að hinu leytinu geta þeir ekki samkvæmt lögum fengið kirkjulega vígslumenn til að gefa sig saman. Frumvarpið gengur eingöngu út á að þetta tvennt verði til staðar, þ.e. að samkynhneigðir hafi rétt til að ganga í hjónaband og kalla sig hjón og að þeir hafi möguleika á að fá vígslu hjá trúfélagi sínu.

Síðan langar mig til að spyrja hv. þingmann, af því að hann sagði í ræðu sinni að fólki væri nú þegar mismunað eftir kynhneigð í almennum hegningarlögum. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður átti við og þætti ágætt að fá svar við þeirri spurningu.