135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langaði í seinni ræðu minni, sem verður ekki löng, að ítreka það sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um barneignir og undirstöðu hjónabandsins. Sú skilgreining stenst ekki. Hv. þingmaður dró það fram að konur sem væru komnar úr barneign gætu þá ekki gengið í hefðbundið hjónaband og hvað þá ófrjósamir einstaklingar sem ekki vilja taka stjúpbörn. Ættu þau pör þá að skilja? Þetta er fáránlegt.

Hvergi í lögunum finnst sú skilgreining að barn sé undirstaða hjónabandsins. Hjónabandið er skref sem tveir einstaklingar stíga til þess að votta að þeir elski hvor annan og vilji eyða ævinni saman til æviloka. Þetta er ákveðin stofnun, en barn er ekki undirstaðan. Það er ekki þannig og hvergi í lögunum finnst sú skilgreining.

Um daginn þegar þessi mál voru mikið til umræðu í samfélaginu í tengslum við kirkjuþing kom góðborgari hér í bæ fram með þau rök að hún upplifði að ef þetta skref yrði stigið hætti hún að geta kallað sig konu. Þetta fundust mér afar sérkennileg rök, ég sé ekkert samhengi þar á milli. Þessi lög breyta því einu að samkynhneigðir fá full réttindi, að ekki verður aðgreining á milli gagnkynhneigðra og samkynhneigðra gagnvart hjúskap. Það á ekki að verða þess valdandi að nokkur maður missi tengsl við kynímynd sína, slík umræða er að mínu mati út í hött.

Miklar framfarir hafa orðið í þessum málum. Á sínum tíma flúðu samkynhneigðir til útlanda af því að í litlu samfélagi þótti erfitt að vera samkynhneigður. Síðan hafa verið stigin mörg skref. Lítum til baka. Munið þið þegar við vorum að ræða um staðfesta samvist? Það þótti rosalegt skref og tekist var á um það. Nú finnst manni þetta sjálfsagt. Þegar við breyttum lögum varðandi ættleiðingar urðu umræður líka heitar, mörgum fannst þetta mjög erfitt. Nú finnst manni þetta sjálfsagt.

Líklega munum við líta þannig á þetta mál síðar þegar búið verður að samþykkja frumvarpið, hvenær sem það nú verður. Þá munum við líta til baka og segja: Rosalega var þetta nú erfitt og umræðan var sársaukafull. En þetta er ekkert mál. Þetta mál er þess eðlis að við munum upplifa þetta þannig síðar.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði líka að umræðuefni spá mína um það hvenær þetta mál fengi framgang. Hún fór að velta því fyrir sér hvort ríkisstjórnin sæti út kjörtímabilið eða ekki. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það. En í ríkisstjórninni er geysilega mikil ósamstaða. Það er ótrúlegt hvernig ráðherrarnir leyfa sér að tala í kross. Það verður að vera einhver lágmarkssamnefnari. Menn geta ekki í veigamiklum málum talað út og suður á opinberum vettvangi í sömu ríkisstjórninni, það gengur ekki upp. En ég sé ekki neitt sem bendir til þess að ríkisstjórnin falli á næstunni, ég verð að viðurkenna það. Með þennan mikla meiri hluta virðist þetta allt frekar auðvelt og þægilegt fyrir ríkisstjórnarflokkana.

En maður finnur viðhorfin hjá mjög mörgum, þingmönnum og öðrum, sem maður ræðir þessi mál við. Jú, þetta er réttlætismál, þetta er rétt, það á að breyta lögunum en svo kemur alltaf þetta „en“. Og hvað er þetta „en“? Það eru rökin: Æ, það er leiðinlegt að styggja kirkjuna. Þessi tilhneiging er frekar sterk hjá mjög mörgum og ég virði hana að vissu leyti. Auðvitað er leiðinlegt að styggja kirkjuna en mér finnst þetta mál vera í anda kirkjunnar. Þetta er réttlætismál, við eigum ekki að aðgreina fólk og við eigum að koma vel fram við aðra. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, er það ekki eitt af grundvallarstefjum kirkjunnar? Mér finnst þessi umræða ekki þess eðlis að maður eigi að styggja kirkjuna. En margir upplifa það þannig og ég hef líka séð að sumir leiðtogar kirkjunnar upplifa það þannig sjálfir, þessi umræða reynist þeim erfið. Ég spái því að þetta mál verði þar af leiðandi ekki samþykkt á næstu missirum. Ég vona að svo verði en mér finnst það ólíklegt.

Ég vil líka geta þess, aðallega þeim fáu þingmönnum sem hér eru til skemmtunar, að það er ankannalegt að standa hér og berjast fyrir því að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband og hafa ekki einu sinni sjálfur gengið í hjónaband. En þetta er réttlætismál og þess vegna ætla ég að styðja það og berjast fyrir því.

Málið fer væntanlega til allsherjarnefndar að lokinni þessari umræðu og sú er hér stendur er í þeirri nefnd. Það verður spennandi að sjá hvort meiri hluti er í nefndinni fyrir því að hleypa málinu áfram því að sumir telja það þverpólitískt, að í flestum flokkum séu aðilar sem vilja samþykkja málið strax en aðrir sem vilja bíða aðeins til að styggja ekki kirkjuna.

Það er þá spurning hvort við erum tilbúin til að fara í atkvæðagreiðslu. Oft er talað um að nokkur mál séu þess eðlis að menn vilji fá atkvæðagreiðslu um þau, það gangi þvert á flokka. Við getum nefnt boxmálið. Það var mál af því tagi. Annað slíkt mál var um það hvort breyta ætti vindstigum í metra á sekúndu. Þetta eru mál sem fara ekki endilega eftir flokkslínum. Ég tel þó að kjarninn í stefnu míns flokks sé stuðningur við málið. Ég hef líka heyrt um önnur viðhorf hjá fólki í mínum flokki: Þetta er nú allt að koma, ekki styggja kirkjuna. Ég held að þetta sé svona í flestum flokkum.

Ef við næðum málinu í þann farveg að leyfa þinginu, ef það er tilbúið til þess, að gera þessa hluti upp við sig gætum við tekið það úr nefnd og gætum einfaldlega ýtt á græna, rauða eða gula takkann. Þá lægi fyrir hver staðan væri núna. Ef málið yrði fellt er ég sannfærð um að það yrði samþykkt síðar. Þetta er bara spurning um tíma, virðulegi forseti.