135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

uppkaup á jörðum og verndun landbúnaðarlands.

[13:43]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka málið upp. Ég held að það sé mjög eðlilegt að þetta mál sé rætt. Miklar breytingar hafa átt sér stað á örfáum árum og þróunin orðið sú að þéttbýlisbúar kaupa jarðir. Sannleikurinn er sá að bændur vilja taka vel á móti þéttbýlisbúum, vil ég meina, og finnst verulega jákvætt að mörgu leyti að fólk skuli sækja meira í sveitirnar til að njóta náttúrufegurðar og kyrrðarinnar sem þar er. Við verðum að horfa á þann jákvæða þátt að sveitirnar hafa bætt ímynd sína með þessu móti.

Við horfum fram á það að bændum hefur fækkað og mun væntanlega fækka eitthvað áfram en ég tek með hæstv. ráðherra undir mikilvægi þess að ljósin verði ekki slökkt í sveitunum. Þó að um það verði að ræða í meira mæli en hefur verið að búseta sé ekki eins og við höfum þekkt frá liðnum árum, heldur sé meira um helgarbúsetu að ræða og þá hugsanlega sumardvöl að auki, er það þó betri niðurstaða en að bæirnir og sveitirnar fari í eyði.

Svo vil ég líka nefna að það að einstaklingar séu bókstaflega að safna jörðum er eitthvað sem fellur ekki mjög vel að þjóðarsálinni. Ég tek undir þau varnaðarorð sem komu fram hjá málshefjanda í þeim efnum, það er eitthvað sem við vildum helst ekki sjá gerast í miklum mæli þó að það sé erfitt að snúa því við (Forseti hringir.) sem nú þegar hefur átt sér stað.