135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almenn hegningarlög.

184. mál
[15:41]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. dómsmálaráðherra að um vandað og vel unnið frumvarp er að ræða og vissulega er tímabært að leggja fram margt af því sem þar greinir frá. Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með að mælst er til að viðbót við 227. gr. verði lögfest þar sem fjallað er um ákveðin atriði sem snerta misnotkun fólks í tengslum við kynferðislega nauðungarvinnu og mælt fyrir um ákveðna refsingu hvað það varðar. Ég hefði reyndar talið að refsimörk ættu að vera þyngri en hér er mælt fyrir um því að um mjög alvarlega hluti er að ræða. Eins og ég hef áður vikið að í ræðustól á hv. Alþingi fer brotastarfsemi sem tengist mansali vaxandi og er eitt alvarlegasta málið sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Í greinargerð með frumvarpinu er lítillega vikið að því atriði. Talað er um að árlega verði þúsundir einstaklinga, aðallega konur og börn, fórnarlömb mansals. Samkvæmt umfjöllun á vegum alþjóðamannréttindasamtaka geta það verið allt að 27 milljón manns sem þannig er ástatt með. Ástæða er til að bregðast við af mikilli festu og reyna að koma í veg fyrir þessa brotastarfsemi þar sem öll mannréttindi eru svívirt. Ég hefði mælst til þess að refsiramminn, eða útmæld refsing, fyrir brot á 227. gr. hefði verið víðari og hefði ef því er að skipta verið færður upp í ævilangt fangelsi.

Önnur atriði vekja hins vegar spurningar. Í fyrsta lagi hvað snertir upptöku eigna. Þar eru ýmis vandamál á ferðinni varðandi ákæruvald og sækjendur af hálfu ríkisvaldsins. Það er spurning hvort of langt er gengið í sumum tilvikum. Í c-lið 69. gr. er vísað til þess að gera megi upptæk verðmæti að hluta eða heild sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot. Síðan er vikið að því, og þá er verið að snúa sönnunarreglunni við, að viðkomandi verði að geta sýnt fram á að hann hafi aflað munanna með lögmætum hætti, og er þá kannski langt seilst til fanga. Ég velti vöngum yfir því hvort of langt sé gengið, hvort skilgreina þurfi nánar hvað um er að ræða, í hvaða tilvikum þetta eigi við. Í sama mæli má segja um g-lið 69. gr., sem fjallar um að beita megi upptöku með dómi án þess að nokkur sé ákærður í máli, sem mér finnst líka orka tvímælis. Ég átta mig á því og tel nauðsynlegt að sett séu skýrari ákvæði í lög um heimildir til að gera fjármuni sem verða til við brot upptæka — brotastarfsemin hefur þróast með þeim hætti að það verður að setja víðtækari ákvæði um það í lög. Ég get fallist á það. Það er hins vegar spurning hvenær við förum út fyrir eðlileg mörk.

Að öðru leyti vil ég lýsa yfir stuðningi við frumvarpið, það er vel unnið og vel fram sett. Full ástæða er til þess að það verði lögfest sem allra fyrst.