135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:54]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem vakti sérstaklega athygli mína í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar var samkeppnisstaða innlendrar fiskvinnslu í samanburði við erlenda fiskvinnslu.

Mér er spurn: Til hvers er hv. þingmaður að horfa þar? Við vitum að verðmætasköpunin er á nokkrum stigum, fyrst í verði á kvótanum og verð á kvótanum er orðið býsna hátt. Það er komið yfir 4 þús. kr. á þorskkílóið. Það gefur augaleið að það rýrir náttúrlega samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar að þurfa að borga það, og annarra sem taka sinn hluta af heildarverðmynduninni. Ég spyr hv. þingmann hvernig hann meti það.

Þá veltir maður líka fyrir sér samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar á sjó. Þegar litið er til þess hvernig þetta hefur skipst á undanförnum árum þá hafa u.þ.b. 60% af botnfisksaflanum verið unninn í landi og þar með talin er ferskvinnsla í flug sem hefur kannski átt stóran þátt í að halda því hlutfalli uppi. Síðan eru um 28% unnin úti á sjó, fiskvinnsla á sjó sem menn velta líka fyrir sér hversu arðbær sé í sjálfu sér miðað við að hún væri unnin í landi eins og hv. þm. Grétar Mar kom inn á. Síðan eru um 11% flutt út í gámum.

Ef maður horfir á hinar þjóðhagslegu hliðar á þessu í heild sinni þá veltir maður fyrir sér: Fær þá innlend (Forseti hringir.) fiskvinnsla sín tækifæri til jafns við aðra?