135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:10]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í annað sinn um þetta mál enda tel ég það mikilvægt. Þegar við ræðum sjávarútvegsmál finnst mér alltaf að sami hópur þingmanna sitji í salnum, og hann er hér. Þetta eru allt orðnir gamlir og góðir kunningjar úr þessari umræðu alla vega á þessu þingi. Það er því miður tímanna tákn hversu fáir þingmenn virðast setja sig í færi að taka þátt í umræðu um einn allra mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar og án efa þann atvinnuveg sem mestu máli skiptir í hinum dreifðu byggðum.

Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að þegar kemur að byggðamálunum er ástandið þannig að ef okkur tekst ekki að byggja upp þorskstofninn, ef okkur tekst ekki að auka þorskveiðina á næstu árum, verður ekkert um bundið mjög víða í hinum dreifðu byggðum og skiptir þá engu máli til hvaða aðgerða við grípum. Þetta á sérstaklega við í hinum minni sjávarbyggðum sem reiða sig svo mjög á þorskveiðar og sjávarútveginn almennt. Ég get tekið undir þær áhyggjur sem komið hafa fram m.a. hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, síðustu 20 ár eða svo höfum við fylgt býsna vel tillögum fiskifræðinga og það er því áhyggjuefni hvar við erum stödd núna. Það er enn meira áhyggjuefni þegar við horfum til framtíðar, í ljósi frétta sem berast úr þeim ranni, að ekki virðist ástæða til mikillar bjartsýni eða til að ætla að það muni ganga hratt að byggja upp þennan mikilvæga stofn þjóðarinnar.

Mig langar að nefna eitt atriði sem ég held að skipti máli í þessari umræðu almennt sem snýr að umhverfisáhrifum veiðanna. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom inn á það hér áðan að það skiptir máli hvernig fiskur er veiddur. Vandinn við kvótakerfið, eins gott og það nú er fyrir margra hluta sakir, er sá að ekki er nema takmarkaður eignarréttur sem af því hlýst. Hugmyndin með kvótakerfinu er sú að búa til eignarrétt til að koma í veg fyrir þær óæskilegu afleiðingar sem fylgja ásókn í auðlindir þar sem ekki er um að ræða skilgreindan eignarrétt. Vandinn er sá að sá eignarréttur er einungis skilgreindur að hluta. Kerfið tekur ekki heldur á því að það getur skipt máli hvernig fiskur er veiddur, þ.e. veiðiaðferðir eins aðila geta haft áhrif á afkomu þess næsta. Ef það er niðurstaðan að troll skemmi botn eða eyðileggi uppeldisstöðvar hefur það áhrif á möguleika annarra til að stunda fiskveiðar.

Þetta hefur því miður lítið verið rætt í umræðum um fiskveiðistjórn. Ég segi það hreint út að ég held að menn hafi verið svo uppteknir í bardaganum um eignarréttinn og bardaganum fyrir því að koma í veg fyrir sérstakan auðlindaskatt á sjávarútveginn og landsbyggðina að í hvert skipti sem einhver hefur orðað þessa hugsun hafa menn farið ofan í skotgrafirnar og neitað að ræða málið af þeirri skynsemi sem nauðsynlegt er að gera. Vonandi tekst okkur nú á næstu árum í það minnsta að hefja þessa umræðu án þess að allt fari á hvolf.

Hvað varðar möguleika fiskvinnslunnar og reyndar útgerðarinnar til þess að fá sem hæst verð þá ætti það að skila sér í hærra verði á mörkuðum að nota umhverfisvæn veiðarfæri og þar með betri möguleikum slíkrar útgerðar og vinnslu að kaupa veiðiheimildir á markaði og þar með ætti afkoma slíkrar útgerðar að vera betri. Vissulega vonar maður að hlutirnir gangi þannig fyrir sig og muni gera í ríkari mæli þegar fram líða stundir eftir því sem markaðurinn fyrir fisk verður næmari fyrir þessum sjónarmiðum. Ég tel að þannig muni þróunin verða og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að taka á þessum málum. Hvernig ætlum við að fást við það að mismunandi veiðarfæri hafa mismunandi áhrif á lífríkið?