135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

4. mál
[18:38]
Hlusta

Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald með síðari breytingum. Flutningsmenn auk mín eru Bjarni Harðarson, Magnús Stefánsson og Siv Friðleifsdóttir.

Frumvarp þetta varðar flutningskostnað og er tilgangur þess að lækka þann ósanngjarna kostnað sem fyrst og fremst bitnar á landsbyggðinni.

Það sem felst í frumvarpinu er, eins og kemur fram í 1. gr., að eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna. Við bætist ný málsgrein sem kemur á eftir 2. mgr. og er orðuð svo:

„Endurgreiða skal 50% olíugjalds af olíu sem flutningsaðilar skv. i- og j-lið 3. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2001, kaupa til flutnings. Reglur um endurgreiðslu samkvæmt þessari málsgrein skulu settar af fjármálaráðherra í samráði við samgönguráðherra.“

Það þarf í raun ekki að fara mörgum orðum um að olíugjaldið bitnar því miður einna helst á samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni og á landsbyggðarfólki með hærra vöruverði. Það er alkunna að mörg framleiðslufyrirtæki landsbyggðarinnar hafa átt í vök að verjast á undanförnum árum og þar hefur margt komið til. Einn af stóru þáttunum í rekstri margra þeirra er flutningskostnaður. Flutningur til og frá stærsta markaðssvæði landsins á suðvesturhorni landsins er verulega íþyngjandi og hefur því miður átt stóran þátt í að fyrirtæki úti á landsbyggðinni hafa þurft að hætta rekstri eða flytja sig um set. Sama á við um mismun á vöruverði sem oft og tíðum stafar af háum flutningskostnaði sem leggst ofan á vöruna við flutning.

Í kjölfar niðurskurðar á þorskkvótanum í 130 þúsund tonn var ljóst að mörg svæði á landsbyggðinni mundu verða illa úti við þá aðgerð. Þingflokkur Framsóknarflokksins gaf út eigin tillögu um hvernig best væri að koma til móts við þéttbýliskjarna sem verst verða úti af þeim sökum. Ljóst var að byggðatengdar aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru alls ekki fullnægjandi til að koma til móts við þá fjöldamörgu einstaklinga og lögaðila sem skerðingin bitnar á. Ein af hugmyndum okkar var að lækka flutningskostnað til að bæta búsetuskilyrðin á landsbyggðinni.

Á síðasta kjörtímabili voru unnar tillögur af hálfu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, sem því miður náðist ekki samstaða um af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við framsóknarmenn leggjum því fram þetta frumvarp nú sem í felast sömu sjónarmið og fólust í tillögunni þá. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2008 undir fjárlagalið 831 er gert ráð fyrir að jafna kostnað við vöruflutninga til Vestfjarða, leggja eigi til 150 millj. tímabundið þegar samgöngubótum á Vestfjörðum er lokið á síðari hluta ársins 2008. Þetta er liður í svokölluðum mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem að mínu mati er rangnefni. Þetta sýnir vissulega vilja hjá ríkisstjórninni til að taka á þessu brýna verkefni en ég velti fyrir mér af hverju jöfnunin eigi aðeins við um Vestfirði þótt vissulega megi þar gera mun betur í þessum efnum. Önnur svæði eiga þó virkilega undir högg að sækja eins og til að mynda á norðausturhorni landsins og staðir sem standa utan þensluáhrifa á Austurlandi. Jafnframt verður að gagnrýna hversu stutt þessi aðgerð á að vara en henni verður lokið á svipuðum tíma á næsta ári. Þörfin á úrbótum mun vara miklu lengur en þetta eina ár sem jöfnunin á að ná til. Því miður munu vegalengdir milli svæða ekki styttast að verulegu leyti á næstu árum þó að samgöngubætur muni vissulega verða til bóta.

Segja má að svokallaðar mótvægisaðgerðir hafi orðið að andvægisaðgerðum þegar ríkisstjórnin tilkynnti að eitt af forgangsverkefnum hennar væri að leggja niður flutningssjóð olíuvara, sjóð sem ætlað er að jafna flutningskostnað af bensíni og olíu um landið. Sem dæmi má nefna að bensínið á Þórshöfn hefur verið 3,30 kr. ódýrara en það hefði annars verið og gas og olía um 2,20 kr. ódýrara. Nú mun það breytast, eldsneyti á landsbyggðinni mun hækka og var það þó of dýrt fyrir. Maður veltir fyrir sér áhrifum þess að leggja 150 millj. kr. til að jafna vöruflutninga til Vestfjarða um leið og verið er að leggja niður sjóð fyrir 401 millj. kr.

Í frumvarpinu er lagt til að allir flutningsaðilar sem stunda farmflutninga í atvinnu og eigin þágu skuli fá endurgreitt 50% olíugjaldsins. Flutningsmenn frumvarpsins töldu ekki annað fært en taka flutningskostnað um allt land fyrir af alvöru og ekki tímabundið þó að í frumvarpinu standi að endurskoða eigi ákvæði 3. mgr. í upphafi árs 2011. Ég tel að nú sé tímabært að taka á þessu máli af alvöru vegna þess að því miður standast almenningssamgöngur og flutningar sjaldnast undir kostnaði. Með þessari aðgerð teljum við að hægt væri að lækka kostnað við eldsneyti, sem er stór hluti af rekstrarkostnaði flutningabíla, um allt að 20% almennt um allt land. Sú tala ætti að fara hækkandi eftir því sem vegalengdir yrðu meiri. Lækkunin verði því hlutfallslega mun meiri fyrir dreifðari byggðir landsins.

Í b-lið frumvarpsins segir: „Í stað orðanna „endurgreiðslu skv. 1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: endurgreiðslur skv. 1. og 3. mgr.“

Þetta er tæknilegs eðlis og í raun er verið að vísa í 1. mgr. sömu lagagreinar og lagt til í breytingartillögunni að framkvæmd um endurgreiðslu verði mjög svipuð því sem þar kemur fram.

Við framsóknarmenn höfum reiknað út að sá kostnaður sem fellur á ríkið við lagabreytinguna sé um 200 millj. á ári. Á kjörtímabilinu má því segja að um 600 millj. muni renna úr ríkissjóði til að jafna flutningskostnað á landinu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, eins og í 2. mgr. 23. gr sömu laga og hér er fjallað um, að innheimtar tekjur af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi renni til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna. Flutningsmenn leggja eindregið til að með frumvarpinu verði ekki skertar þær tekjur sem Vegagerðin hefur á grundvelli nefndrar lagagreinar og að tekjustofnar stofnunarinnar muni ekki dragast saman verði frumvarpið samþykkt. Við bendum því á að eðlilegt væri annaðhvort að hækka framlög ríkisins til stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum fyrir næsta ár sem því nemur eða að nýr útgjaldaliður verði settur inn í fjárlögin til að mæta þeim kostnaði sem fellur á ríkissjóð vegna endurgreiðslunnar. Hér er um afar brýnt mál að ræða. Samkeppnisaðstaðan á landsbyggðinni er einfaldlega slæm og önnur en á höfuðborgarsvæðinu, alveg sama hvar drepið er niður fæti. Nefna má fjarskiptamál í þessu tilliti en margar byggðir landsins búa því miður við lélegt netsamband.

Svona væri hægt að halda lengi áfram en laga þarf menntamál, húsnæðismál og samgöngumál til að samkeppnisaðstaða landsbyggðarinnar sé sambærileg við annað á landinu.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu. Ég vænti svo að sú nefnd sem fær málið til meðferðar muni kalla eftir viðhorfum, bæði úr samgöngunefnd og þá væntanlega félagsmálanefnd eða þeirri nefnd sem fer með byggðamálin, en efni frumvarpsins snertir efni beggja þessara málaflokka.