135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[15:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Mál það sem hér er til umfjöllunar hefur áður komið til kasta okkar í þessum sal en það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að það hafa orðið nokkur tíðindi með ákvörðun hreppsnefndar Flóahrepps. Ég vil þó mótmæla því að hreppsnefnd Flóahrepps hafi tekið þessa ákvörðun af annarlegum ástæðum. Hér er enginn til andsvara fyrir þá góðu hreppsnefnd. Ég get viðurkennt að ég hef ekki náð að kynna mér forsendur hennar til hlítar en ég tel það ámælisvert að talað sé á þann hátt sem hér var gert um ákvörðun lýðræðislega kjörinna fulltrúa í Flóahreppi.

Fyrir kosningar hafði Samfylkingin mörg orð um það, og ég sat sjálfur á fundi þar sem voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, að stöðva bæri þessi virkjunaráform í neðri hluta Þjórsár tafarlaust. Það er mjög einfalt að halda slíku fram í kosningabaráttu en ég benti á það þá og hef bent á það alla tíð síðan að þetta mál er erfitt viðureignar og það er mjög erfitt að koma því við að stöðva þessa framkvæmd alfarið þar sem hún fór í gegnum umhverfismat athugasemdalaust. Það er mjög erfitt fyrir hreppsnefnd Flóahrepps að stöðva þetta mál á umhverfisverndarforsendum eingöngu.

Aftur á móti er mjög brýnt að Landsvirkjun slái af kröfum sínum varðandi lón á þessu svæði og að umhverfisskaði af völdum þessara virkjana, sem eru rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár, verði sem allra minnstur. Ég tel og hef alltaf litið svo á að hægt sé að gera þetta með mjög ásættanlegum hætti, með því að sleppt sé að búa til stórt og mikið lón á móts við bæinn Haga í Gnúpverjahreppi (Forseti hringir.) sem mun skemma mjög innkomuna inn í Þjórsárdal og brýnt að sú barátta vinnist. Það er hin raunhæfa víglína í þessu máli.