135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:01]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það á ekki að koma hv. þingmanni neitt á óvart hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi heilbrigðismál segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag.“

Með því að lesa þennan þátt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar getum við í rauninni séð að þarna er verið að stíga skref til að koma betur til móts við þarfir fólks fyrir heilbrigðisþjónustu þar sem segir að heilbrigðisstofnanir fái fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka.

Það er annað atriði í ræðu hv. þingmanns áðan sem mig langar aðeins að upplýsa hana um, því að hún kallaði eftir því að aukið fjármagn yrði sett til heimahjúkrunar og sólarhringsþjónustan yrði styrkt. Eins og kom einmitt fram í hv. heilbrigðisnefnd við umfjöllun um fjárlög fyrir árið 2008 þá er verið að auka fjármagn til heimahjúkrunar, þrefalda fjármagnið frá 2006 til 2009, auka það úr 500 millj. á ári í 1,4 milljarða árið 2009 sem er verulega mikil aukning, nánast þreföldun á fjármagni til þessa þáttar. Ég heyri það á þeim aðilum sem halda utan um þessa þætti að þegar árin 2006 og 2007 við aukið fjármagn megi sjá þess merki að heimahjúkrun styðji í auknum mæli m.a. aldraða við að vera heima, og það er ánægjuleg þróun.