135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[15:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tel algjörlega sjálfsagt að ræða þetta. Ég þigg öll þau ráð sem hv. þingmaður getur fært mér og öðrum og viðurkenni fúslega að á ákveðnum ferli þessarar samningalotu sem leiddi til núverandi stöðu hafði hv. þingmaður réttara fyrir sér um stöðu málsins en ég.

Hv. þingmaður spyr síðan eftirfarandi spurningar: Er þetta ekki rétti tíminn til þess að taka ákvörðun og taka upp baráttuna fyrir þessu tiltekna ákvæði? Ég held að svo sé ekki. Ég held að á Balí-fundinum, í aðdraganda hans og upp úr honum skipti annað langmestu máli sem Íslendingar og aðrar smáþjóðir eiga að reyna að berjast fyrir. Það er að reyna að fá þessi stóru lönd, þessi efnahagslegu tígrisdýr sem eru að spretta fram í Suðaustur-Asíu og víðar, eins og Indland, Kína og fleiri lönd, til að taka þátt í þessu samningaferli, vera með. (Forseti hringir.) Það skiptir öllu máli ef maður horfir til vandamálsins alls.