135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

tollalög.

229. mál
[15:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég bað um orðið til að taka upp þetta sama mál, eða nokkurn veginn þetta sama mál, og varð tilefni orðaskipta í andsvari. Það vekur athygli í þessu máli að verið er að færa verkefni til tollstjórans í Reykjavík sem áður hafa verið hjá ráðuneyti sem eðli málsins samkvæmt sinnir þá viðfangsefnum sínum með allt landið undir.

Hér virðist vera í gangi angi af þeirri þróun — með fullri virðingu fyrir tollstjóraembættinu í Reykjavík, sem að sjálfsögðu er mikilvægt og ber höfuð og herðar yfir allt annað í þessu — að líta svo á að Reykjavík sé eina innflutningshöfn landsins og þess vegna séu stjórnsýsluverkefni nánast vistuð hjá tollstjóranum í Reykjavík. Það er tvennt sem þarna á greinilega að fara, þ.e. tollstjórinn fær þarna verkefni sem áður voru hjá ráðuneytinu og eins á tollstjórinn í Reykjavík hér eftir að heimila lögaðilum eða fyrirtækjum að reka innflutningsgeymslur. Ég skil þetta þannig að tollstjórinn í Reykjavík eigi þá að veita slík leyfi fyrir þeirri starfsemi hvar sem er á landinu. Þá er í enn ríkari mæli en áður verið að gera tollstjóraembættið í Reykjavík að yfirtollstjóraembætti og framlengdum armi ráðuneytisins eða stjórnsýslunnar sem landið allt heyrir undir.

Maður verður mikið var við óánægju með það hversu dregið hefur úr möguleikum manna til að fá tollafgreiddar vörur á höfnum úti um landið. Það er spurning hvort hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér að móta einhverja stefnu um þjónustustigið að þessu leyti. Ég tek eindregið undir það og skora á virðulega þingnefnd í samráði og samstarfi við ráðuneytið að taka þetta upp í tengslum við umfjöllun um þetta mál og skoða hvernig þessir hlutir standa núna. Það þarf m.a. að afla gagna af landsbyggðinni um framkvæmdina eins og hún er — eða öllu heldur eins og hún er ekki — því það er á miklu undanhaldi að hafnir úti um landið geti verið eðlilegar útflutnings- og innflutningshafnir og fái þar tollafgreiðslu eða þjónustu á þessu sviði. Sú þjónusta verður að vera til staðar eigi menn að geta stundað þar sína atvinnustarfsemi. Ég fagna því að þetta skuli koma hér upp og tek undir að full þörf er á því að skoða þetta.