135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú alveg á mörkunum að maður eigi að vera að ómaka sig upp í ræðustólinn til þess að svara svona útúrsnúningi og þvættingi eins og hér kom frá hv. þingmanni.

Ég var að ræða um það eitt að menn hefðu við upptöku olíugjaldsins talað um það og gengið út frá því að sterk umhverfisleg rök væru fyrir því að tryggja vissan verðmun dísilolíu í hag og hvetja frekar til notkunar sparneytnari véla, dísilvéla. Og ef það er ekki umhverfisstefna þá veit ég ekki hvað það er. Ég var ekki að tala fyrir lækkun sem slíkri sérstaklega á þessum orkugjöfum heldur að ræða þarna um verðmun. Þau rök standa öll enn. Dísilvélar nýta betur aflið og menga minna. Þróunin í bílaiðnaðinum er sú að náðst hefur náðst mikill árangur í að gera dísilvélarnar enn sparneytnari og þær skila góðu afli eins og dæmin sem ég nefndi sýna.

Hækkun á útsöluverði eða öllu heldur innkaupsverði fer beint út í verðlagið. Við erum að tala um fasta krónutölu sem þar leggst ofan á sem skattur og við erum að tala um hvernig við högum því. Hvarvetna á byggðu bóli eru til umræðu einhverjar stýringar í gegnum skatta sem ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður hafi heyrt um. Það eru stundum kallaðir grænir skattar eða umhverfisskattar. Þetta kemur auðvitað beint inn á það að reyna að stuðla að því að þróunin í okkar samgöngum sé þrátt fyrir allt í jákvæða átt og rétta átt frá sjónarhóli umhverfisins. Er þá ekki blessaður maðurinn kominn austur í Sovét þegar maður fer að ræða um þessa hluti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa farið eitthvað öfugu megin fram úr í morgun. Þetta var þannig ræða sem hann hélt.