135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:07]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það þýðir ekki að horfa til baka. Margt hefur gerst í fortíðinni. Hér er verið að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórnina um úrræði og vandamál dagsins.

Það er engin spurning að vextir hækka. Það er mikil verðbólga. Það er hækkandi íbúðaverð. Íbúðalánasjóður hefur verið í óvissu. Ég vil fá skýr svör frá hæstv. félagsmálaráðherra: Verður hann til áfram í þeirri mynd sem hann er? Eða fellst hún á áform sjálfstæðismanna um að losa hann út af markaðnum eins og til stóð og kom hér fram síðasta sumar?

Unga fólkið er skuldsett. Það liggur fyrir að miklir erfiðleikar blasa við og ég tek undir það með hæstv. félagsmálaráðherra að leigumarkaðurinn er afbrigðilegur og byggingamarkaðurinn sömuleiðis. Kannski þarf að rannsaka þróun síðustu þriggja ára þegar húsnæðisverð hefur hækkað eins og hér hefur verið lýst um 70–80%. Aldrei meira byggt, aldrei meira framboð. Lögmálin virka bara upp á við. Það þarf að rannsaka hvað þarna er um að vera. Þarna eru nýir heildsalar. Þarna er bankakerfið inni og hefur mikil áhrif. Það þarf að rannsaka þá þróun sem átt hefur sér stað á byggingamarkaðnum á síðustu þremur árum.

Ég tel að hæstv. félagsmálaráðherra megi ekki sofa þessum þyrnirósarsvefni. Það blasir við að afborganir og skuldsetning unga fólksins með því háa vaxtastigi sem bankarnir bjóða ekki lengur á 4,15% heldur 6,40% og 7,15% þýða að margir verða í úlfakreppu ef ekki verður gripið í taumana. Ríkisstjórnin verður að svara því hvaða leiðir hún ætlar í húsnæðismálum.

Ég tel að hæstv. félagsmálaráðherra þurfi að fara yfir þróunina á leigumarkaðnum og enn fremur að rannsaka líka (Forseti hringir.) byggingamarkaðinn og það sem hefur gerst á honum á síðustu árum, það er afbrigðilegt. (Forseti hringir.) Hér þarf skjót úrræði, hæstv. forseti.