135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:01]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og í mínum fyrri andsvörum, þakka samstarfið í fjárlaganefnd, þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir gott samstarf og ánægjulegt. Ég get þó ekki látið hjá líða að svara í nokkrum orðum ýmsu sem kom fram í máli hans og nota enn fremur tækifærið til að þakka hlý orð í garð formanns og varaformanns fjárlaganefndar. Þó að hv. þm. Bjarni Harðarson hafi ekki gengið jafnlangt og hv. þm. Jón Bjarnason, að vikna í ræðustóli, virðum við viljann fyrir verkið, formaður og varaformaður fjárlaganefndar.

Fram kom í máli hv. þingmanns að hann hefur fyrirvara á álitinu sem skrifað er upp á með meiri hlutanum, sérstaklega vegna vinnubragðanna. Þó að hann fagni því sérstaklega að í höfn séu gömul baráttumál framsóknarmanna, og vísaði þar til þess að skuldahalinn væri höggvinn af Landspítalanum. Það skyldi þó ekki vera að þegar íhaldið náði tökum á heilbrigðisráðuneytinu hafi verið hægt að uppfylla þann langþráða draum framsóknarmanna að skera skuldahalann af Landspítalanum. Ég hef grun um að það hafi m.a. gengið vegna þess að í því háa og ágæta ráðuneyti hafa orðið vistaskipti.

Ég vil á margan hátt taka undir þau sjónarmið hv. þingmanns sem lúta að vinnubrögðum við gerð þessara fjáraukalaga. Ég get á margan hátt deilt skoðunum með honum í því eins og kom fram í fyrri andsvörum mínum. Ég skal í síðara andsvari mínu svara því sem hann beindi til okkar fjárlaganefndarmanna, meirihlutamanna, varðandi fjárveitingu til framhaldsskólanna ásamt því sem hann spurði út í þjóðlendumálin.