135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:10]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla um mál sem varðar fjárreiður ríkissjóðs, varðar framkvæmdarvaldið, varðar fjárlaganefnd, varðar Alþingi, varðar sölu eigna á Keflavíkurflugvelli án heimilda, sölu opinberra eigna án heimilda.

Það hefur komið fram í blöðum að Fjárfestingarfélagið Háskólavellir hafi fest kaup á tæplega 1.700 íbúðum á varnarliðssvæðinu á Miðnesheiði af Þróunarfélagi Keflavíkur án þess að farið hafi verið eftir reglum sem gilda um sölu ríkiseigna. Að þessu fyrirtæki, Háskólavöllum, koma m.a. Glitnir, Fasteignafélagið Þrek, Fjárfestingarfélagið Teigur, Sparisjóðurinn í Keflavík og Fasteignafélagið Klasi. Ég spyr mig stundum hvort þetta geti verið hollvinir Keflavíkurflugvallar eins og hollvinir háskóla eða annað slíkt.

Í lögum og reglum er skýrt kveðið á um að auglýsa eigi slíkar eignir til sölu, allir eigi að sitja við sama borð í þessum efnum. Ríkiskaup hafa engin afskipti af þessu, algjörlega hefur verið farið fram hjá Ríkiskaupum í málinu. Það liggur líka fyrir að eignirnar voru ekki auglýstar heldur voru kaupendur valdir — ekki af handahófi virðist vera, það veit enginn af því að þetta ógegnsætt, ólýðræðislegt, það veit svo sem enginn hvernig það hefur gerst. En þarna koma ákveðnir kaupendur inn og virðast hafa forgang að þessum eignakaupum. Við erum að tala um 1.700 íbúðir í eigu ríkissjóðs, 1.700 íbúðir í almannaeign.

Komið hefur fram hjá sérfræðingi eignasölu Ríkiskaupa að skýrt sé að sala slíkra eigna eigi að fara í gegnum Ríkiskaup og Ríkiskaup eigi að ráðstafa þeim eignum sem ríkið hefur ákveðið að láta af hendi eða selja. Öll sala á að fara í gegnum Ríkiskaup. Framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar segir hins vegar að hann hafi fulla heimild í lögum til að selja þessar eignir, „annast umsýslu“, eins og þar stendur, og það er rétt. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur heimild til að annast umsýslu á þessum eignum en lögin sem Þróunarfélagið starfar eftir víkja ekki burtu lögum sem gilda á þessu sviði.

Í lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin, um skil á varnarsvæðunum í Keflavík, segir beinlínis að utanríkisráðherra sé heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar umsýslu tiltekinna fasteigna á öryggissvæði ef þörf krefur.

Í öðru lagi er heimilt að fela Þróunarfélagi Keflavíkur að annast, í umboði ríkisins, umsýslu fasteigna á svæði sem koma á hið fyrsta í arðbær borgaraleg not og merkt er sem svæði C í fylgiskjali. Síðan eru veittar fleiri heimildir. Þessi umsýslustarfsemi hefur ekkert með heimildir til sölu að gera, hv. formaður fjárlaganefndar. Hér erum við að tala um fjáraukalög og fjárreiður. Ef rétt hefði verið að málum staðið hefði þessi heimild þurft að vera í fjáraukalögum en hún er þar alls ekki. Þessi sala hefur sem sé átt sér stað í heimildarleysi og fyrir mér blasir við að um lögbrot er að ræða. Farið er fram hjá samkeppnisreglum, gegnsæi og öllum þeim reglum sem við höfum sett okkur í anda evrópskra reglna um sölu ríkiseigna og kaup ríkisins á eignum.

Lögin um opinber innkaup, nr. 84/2007, eru afar ítarleg og ganga lengra en lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu í Keflavík, nr. 176/2006. Tilgangur laganna er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkefnum og þjónustu. Lögunum er sem sé ætlað að tryggja almannahagsmuni en ekki sérgróðahagsmuni eigenda Háskólavalla. Því fer víðs fjarri.

Í 6. gr. laganna um opinber innkaup eru sérstök ákvæði um hvaða samningar eru undanskildir innkaupunum. Þessi sala er það ekki samkvæmt 6. gr. laganna. Lögin mæla jafnframt í 14. gr. fyrir um að það eigi að gæta jafnræðis milli fyrirtækja við gerð samninga. Sú regla hefur verið brotin. Þar segir beinlínis:

„Gæta skal jafnræðis og gagnsæis við opinber innkaup. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.“

Þessi grein hefur verið þverbrotin. Til kaupa á þessum eignum njóta allir réttar sem eiga staðfestu í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, ekki bara Háskólavellir. Það eru síðan ítarleg ákvæði um það í lögunum hvernig slík sala eigi að fara fram, hvernig eigi að auglýsa, útboðsskilmálar og þar fram eftir götunum.

Til að taka af öll tvímæli þá segir í 4. þætti XIII. kafla:

„Opinber innkaup heyra undir fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd laga þessara. … Á vegum ríkisins skal rekin miðlæg innkaupastofnun, Ríkiskaup.“

Síðan segir orðrétt í 2. mgr. 85. gr. Tilvitnun er þannig, herra forseti:

„Ríkiskaup ráðstafa eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra.“ — Þau ráðstafa eignum ríkisins, bæði eigna sem fjármálaráðuneytið fer með beint og þeim eignum sem eru í opinberri eigu og Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar hefur verið falin umsýsla yfir. Þróunarfélaginu hefur ekki verið falin sala þessara eigna. Þróunarfélagið getur tekið ákvörðun um sölu, þá fer ákveðið ferli í gang í gegnum Ríkiskaup.

Þau lög sem ég var að vísa í byggja á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004, um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga og vörusamninga og þjónustusamninga. Lögin byggja líka á ákveðinni grundvallarhugsun samkeppni, gegnsæis og lýðræðis. Þau byggja á þeirri grundvallarreglu sem á sér samsvörun í stjórnarskránni, jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að allir sitji við sama borð. Tilskipunin er líka byggð á dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Síðan segir orðrétt í inngangi þessarar tilskipunar, með leyfi hæstv. forseta:

„Samningar, sem eru gerðir í aðildarríkjunum fyrir hönd ríkisins eða svæðis- eða staðaryfirvalda og annarra aðila sem lúta stjórn opinberra lögaðila, falla undir meginreglur sáttmálans, einkum meginregluna um frjálsa vöruflutninga, meginregluna um staðfesturétt og meginregluna um frelsi til að veita þjónustu og reglur sem af þeim leiða, t.d. meginreglurnar um jafna meðferð, bann við mismunun, gagnkvæma viðurkenningu, meðalhófsregluna og meginregluna um gagnsæi.“

Á grundvelli þessarar meginreglna á að tryggja jafnræði og samkeppni. Ég spyr í framhaldi af þessari tilvísun: Hvar er samkeppnishugsun hæstv. forsætisráðherra í málinu? Hvar er samkeppnishugsun hæstv. utanríkisráðherra í málinu, sem fer með ákveðna málaflokka á vellinum? Hver er samkeppnishugsun hæstv. fjármálaráðherra? Hver er samkeppnishugsun Sjálfstæðisflokksins í málinu og Samfylkingarinnar? Þessi málsmeðferð er brot gegn stefnu beggja þessara flokka og ríkisstjórnarstefnu. Væntanlega verða einhverjir til svara um það.

Til að taka af skarið um skýrleika þeirra reglna sem hafa verið brotnar hér var sett reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins byggða á þessum lögum um innkaup ríkisins. Sú reglugerð er nr. 206/2003 og kemur skýrt fram í henni að það skuli hverju sinni afla heimilda Alþingis til að selja eða láta af hendi ríkiseignir. Það er ekkert flóknara. Það þarf lagaheimild til þess. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hv. formann fjárlaganefndar af hverju þessar reglur hafa verið þverbrotnar. Hafi hv. formanni fjárlaganefndar verið ókunnugt um þetta þá bið ég þingmanninn að skýra frá því. Er um einhvern vinargreiða að ræða? Við slík viðskipti koma upp samsæriskenningar og grunsemdir og tortryggni vex.

Af hverju sitja ekki allir við sama borð, allir viðskiptamenn á Íslandi, allir sem stunda viðskipti á Íslandi? Hvar er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar? Svo virðist sem þessi ohf.-væðing ætli líka að koma okkur um koll. Það minnir mig á að í fjáraukalögum eru settar 130 millj. kr., ef ég man rétt, til Matíss. Það er kostnaður sem fulltrúi ráðuneytisins upplýsti á fundi nefndar sem ég sat að hefði verið fyrirséður þegar Matís ohf. stofnað um síðustu eða þar síðustu áramót. Fyrirséðar 130 millj. kr.? Hvers konar meðferð er þetta með fjármuni? Af hverju kom það ekki fram þegar lögin um Matís voru til meðferðar á þingi að fyrirséður væri 130 millj. kr. kostnaður í stað þess að það kæmi í bakið á okkur?

Ég minni á það, herra forseti, að við ræddum í síðustu viku skýrslu umboðsmanns Alþingis þar sem hann varar sérstaklega við svona vinnubrögðum. Hann hvetur til fyrir fram gefinna reglna gegnsæis og hann varar við að búin séu til skúmaskot eða afkimar í stjórnsýslunni. Það er svo að það sem af er árinu 2007 hefur umboðsmaður Alþingis sent stjórnvöldum bréf í 15 málum þar sem hann hefur greint frá því að hann hafi ákveðið að taka tiltekin mál til athugunar að eigin frumkvæði, samanber heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, og óskaði eftir upplýsingum og tilteknum skýringum til undirbúnings því að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til þess að hann taki málið formlega til athugunar að eigin frumkvæði.

Satt best að segja vona ég það einlæglega að umboðsmaður taki frumkvæðið í því máli sem ég geri að umtalsefni og taki það upp fyrst bæði ríkisstjórnin, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og meiri hluti Alþingis hefur brugðist í málinu. Ríkisstjórnin hefur brugðist í þessu máli. Það veldur mér miklum vonbrigðum en þegar menn bregðast í svona málum og það blasir við að lög hafa verið brotin þá er alltaf besta og heiðarlegasta leiðin út úr slíkum dæmum að snúa af brautinni og rétta kúrsinn. Það er hægt í þessu tilviki. Ég nefndi umboðsmann Alþingis í þessu tilefni vegna þess að hann hóf frumkvæðisathugun á meðferð valds og eftirlit með sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru eigendur Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvarðana um ráðstöfun á tilteknum eignum Orkuveitunnar.

Að mínu mati er nákvæmlega hið sama í gangi hér. Við erum í raun með nýtt orkuveitumál þótt það sé hugsanlega smærra í sniðum í peningum. Það er þó risastórt vegna þess að það varðar 1.700 íbúðir. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum um aðkomu sveitarstjórna og fulltrúa þeirra að ákvörðun um ráðstöfun ákveðinna eigna Orkuveitu Reykjavíkur og afstöðu til ákveðinna lagaatriða. Það var merkilegt að horfa á á hvaða lagaatriði hann minntist. Hann vildi fá upplýsingar um umboð borgar- og bæjarstjórna. Hann leit til jafnræðisreglunnar og til reglna um sérstakt hæfi við meðferð valds og fleira. Hann var að horfa til þess hvort Reykjavíkurborg og Orkuveitan hefðu yfir höfuð heimildir til að ganga til þeirra gjörninga. Allir vita hvernig það mál hefur þróast.

Hér gildir nákvæmlega hið sama, sömu grundvallaratriðin og í orkuveitumálinu. Farið með almannafé, opinberar eigur, þannig að ráðstafa þeim án heimilda. Það er verið að selja eignir á vellinum til þeirra sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og hugsanlega ríkisstjórnin án þess að ég vilji fullyrða það hafa velþóknun á, sem eru útvaldir kaupendur að þessum íbúðum.

Hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra ber að rétta kúrsinn í þessu máli, afturkalla þessar sölur, afturkalla þá samninga sem hafa verið gerðir og fara í heiðarlega sölu eftir gegnsæjum reglum á grundvelli samkeppnisreglna sem gilda á Íslandi. Ég spyr aftur: Var enginn lærdómur dreginn af Orkuveitumálinu eða gerðist þetta kannski á undan því? Munum við virkilega upplifa nýtt slíkt mál? Ég spyr líka: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í málinu? Hyggst hún beita sér í þessum málum? Hyggjast hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar beita sér í málinu? Hvað hyggst fjárlaganefnd Alþingis fyrir í þessu máli? Hyggst hún láta bjóða sér þessi lögbrot? Ég spyr.