135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

lán Íbúðalánasjóðs.

212. mál
[13:06]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ja, það er komið annað hljóð í strokkinn, eins og það er stundum kallað, þegar hæstv. félagsmálaráðherra talar hér og réttlætir það að hafa lækkað lánin niður í 80% og hafi haft það sem sitt fyrsta verk nánast sem félagsmálaráðherra því að sömu aðgerð gagnrýndi hún nú heldur betur í tíð Framsóknarflokksins í félagsmálaráðuneytinu. Ekki fleiri orð um það að sinni.

Hvað varðar húsnæðismálin þá hafði hæstv. ráðherra hér uppi stór orð í gær og sagði að þau væru komin í þrot og það væri neyðarástand og hún vill gera betur gagnvart íbúðarkaupendum. Hæstv. forsætisráðherra segir hins vegar að það hafi verið gert of vel við íbúðarkaupendur og kennir Framsóknarflokknum um það, heyrist mér, í því samstarfi sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili. Því er mjög erfitt að átta sig á því á hvaða leið ríkisstjórnin er í sambandi við húsnæðismál (Gripið fram í.) og það er spurning hvort hæstv. ráðherra getur hér í síðari ræðu sinni útskýrt það aðeins betur hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.