135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[14:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Tilskipun sú sem hér er fjallað um er svokölluð vatnatilskipun Evrópusambandsins sem kom mikið við sögu á Alþingi þegar vatnalögin umdeildu fóru hér í gegn fyrir tæpum tveimur árum. Ein af kröfum stjórnarandstöðunnar, sem þá var skipuð Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingunni og Frjálslyndum, varðandi það lagafrumvarp var að vatnatilskipun Evrópusambandsins yrði innleidd í íslensk lög og íslenskan rétt áður en aðhafst yrði frekar í vatnalagamálinu. Þeir sem fylgdust með þeirri umræðu minnast þessa. Það er því tími til kominn og fagnaðarefni í sjálfu sér að þessi vatnatilskipun skuli loksins líta dagsins ljós og nú skuli hilla undir það að hún verði lögleidd og leidd í íslenskan rétt.

Eins og oft hefur gerst áður þegar tilskipun frá Evrópusambandinu sem varðar náttúruvernd að einhverju leyti rekur á fjörur okkar, þá kemur alltaf upp það vandamál að í EES-samningnum voru gerðir fyrirvarar af hálfu íslenskra stjórnvalda á sínum tíma þegar samningurinn var gerður, varðandi náttúruvernd. Þannig að þeir þættir sem lúta að náttúruvernd, eins og t.d. lífríki, hvort sem er við strendur landsins, í ám eða vötnum, eða náttúrunni almennt eru ekki teknir upp eða voru ekki teknir upp í EES-samninginn.

Ég velti því fyrir mér þegar ég les í gegnum greinargerðina með þingsályktunartillögunni hvort ekki hafi verið háð nokkrum erfiðleikum að aðgreina þessa þætti, náttúruverndarþættina, frá mengunarþáttunum því að í mínum huga haldast þessir hlutir algjörlega í hendur. Hefði verið full ástæða til að skoða hvort ætti ekki að innleiða þessa tilskipun án þess að greina einhvern náttúruverndarþátt frá og skilja hann eftir.

Ég ímynda mér því að þetta verði eitt af þeim atriðum sem koma til sérstakrar skoðunar þegar tillaga þessi verður til umfjöllunar í nefnd sem er eðli máls samkvæmt utanríkismálanefnd Alþingis. Ég hefði raunar haldið að það væri af hinu góða ef utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd funduðu sameiginlega, héldu a.m.k. einn sameiginlegan fund um innleiðingu þessarar tilskipunar, vegna þess að hún er slík grundvallartilskipun þegar á allt er litið.

Við höfum rætt það úr þessum ræðustóli, hæstv. forseti, oftar einu sinni að stundum tökum við þessar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar inn í íslensk lög án þess að hugsa það nægilega vel eða ræða ofan í kjölinn í nefndum þingsins. Ég hefði haldið að hér værum við einmitt með dæmi um tilskipun sem sé verulega mikils virði fyrir okkur. Það er mikils virði fyrir okkur að innleiða hana á þeim nótum þar sem hún gerir best gagn og mest. Við ættum því að vanda okkur mjög vel við að koma þessari tilskipun alla leið inn í íslensk lög.

Mig langar til að nefna örfá atriði og varpa upp spurningum sem hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. umhverfisráðherra, sem er staddur í salnum líka, geta mögulega svarað. Það kemur fram í greinargerð með tillögunni að samningaviðræður um þessa tilskipun hafi staðið lengi af hálfu íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnarinnar og ég hefði talið að það væri fengur að því að fá að heyra hver helstu álitamálin eða vafaatriðin hafi verið í þeim viðræðum. Mér segir svo hugur að það hljóti að hafa verið aðgreining náttúruverndarþáttarins frá mengunarþættinum en ég hefði talið eðlilegt að við fengjum örlítið gleggri mynd af því sem íslensk stjórnvöld töldu vera vafaatriði í þessum efnum.

Í greinargerðinni kemur fram að fulltrúi Íslands í þessum samningaviðræðum hafi flutt yfirlýsingu á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar þegar tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þar sem sérstaða Íslands hafi verið ítrekuð. Ég sé ekki, hæstv. forseti, í þessu plaggi, sem engu að síður er upp á 76 blaðsíður, að þessi yfirlýsing frá fulltrúa Íslands sé birt í greinargerð með tillögunni. Mér þykir það miður og óska þá eftir að sú yfirlýsing verði til reiðu í umfjöllun nefndarinnar.

Það kemur fram í greinargerðinni að frá árinu 2001 hafi vinnuhópur á vegum umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis starfað til að fara yfir lögleiðingu tilskipunarinnar og síðan er vitnað í starf hópsins. Það tók hann sex ár að skila af sér einhvers konar áliti, en það álit eða sú skýrsla hefur mér vitanlega ekki verið til umfjöllunar hér. Ég hefði því talið eðlilegt að það álit fylgdi sömuleiðis í umfjöllun þessa máls í þingnefndum úr því að það fylgir ekki sem fylgiskjal með tillögunni.

Síðan kemur fram að starfshópurinn sem skilaði af sér í mars 2007 hafi lagt til að Umhverfisstofnun hæfist þegar handa við gagnaöflun og sömuleiðis að stofnaður yrði starfshópur til að gera tillögur að frumvarpi til laga um stjórnskipulag á sviði vatnamála í samræmi við tilskipunina. Ég spyr: Er búið að skipa þennan starfshóp? Og ef svo er, hvenær var það gert og hverjir skipa hann? Það er reyndar getið um það í greinargerðinni hvaða löggjöf þurfi að öllum líkindum að breyta svo það kann vel að vera að starfshópurinn sé búinn að skila af sér án þess að það komi fram í greinargerðinni.

Loks er talað um kostnaðinn og sagt að starfshópurinn sem skilaði af sér í mars á þessu ári hafi talið að tæpar 200 millj. kr. þyrfti til að undirbúa þessar framkvæmdir eða það sem gera þarf í þessum efnum, þ.e. það sem tilskipunin leggur okkur á herðar, og talað er um tímabilið allt til 2013. Umhverfisstofnun er sú stofnun, eðli málsins samkvæmt, sem kemur til með að bera stærstan hluta þess kostnaðar. Ég bendi á að í fjárlögum næsta árs, sem eru nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd og hafa verið í þingnefndum, er ekki mér vitanlega gert ráð fyrir auknum kostnaði hjá Umhverfisstofnun út af þessu tiltekna atriði. Þvert á móti, því að Umhverfisstofnun kemur ekki vel út í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Umhverfisnefnd Alþingis var sammála í áliti sínu að beina þeim tilmælum til fjárlaganefndar Alþingis að skoðað yrði sérstaklega hvort ekki væri hægt að rýmka aðeins um fjárhag Umhverfisstofnunar. Því spyr ég: Ef meðvitundin er sú sem virðist vera í þessari greinargerð, að fólk átti sig alveg á að innleiðingunni fylgir talsverður kostnaður, hvers vegna er ekki gert ráð fyrir þeim kostnaði strax á næsta ári eins og hefði mátt ætla og má lesa af greinargerðinni að komi til með að falla á Umhverfisstofnun vegna þessarar innleiðingar?

Á heildina litið fagna ég því að þessi langþráða vatnatilskipun skuli vera komin en ég legg líka áherslu á að hún verði innleidd á þann hátt að við séum með bæði augun opin og stöndum vel og fagmannlega að verki og höfum umhverfisnefnd með utanríkismálanefnd í ráðum við innleiðinguna.