135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[14:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér komu ýmsar spurningar í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur varðandi þessa vatnatilskipun. Ég er ekki viss um að ég geti svarað þeim öllum á staðnum en mun þá gera ráðstafanir til þess að þingmaðurinn fái svör við spurningunum á fundi umhverfisnefndar þingsins og sjá til þess að þeim spurningum sem almennt eru bornar upp varðandi málið verði svarað.

Það er alveg rétt sem þingmaðurinn segir, það var talsvert rætt um vatnatilskipunina í tengslum við umræðu um frumvarp til nýrra vatnalaga og lögð á það áhersla að vatnatilskipunin yrði innleidd áður en vatnalögin tækju gildi. Ástæðan fyrir því var kannski ekki síst sú að vatnatilskipunin er verndartilskipun sem getur skilyrt vatnsnýtingu. Það kemur mjög skýrt fram í inngangskaflanum eða markmiðssetningunni að meginmarkmiðin eru að tryggja aðgang fólks að góðu og nægu neysluvatni. Þess vegna er verndun grunnvatns mikilvægur þáttur í þessu máli og m.a. þess vegna kom tilskipunin inn í umræðuna þegar frumvarp til vatnalaga var til umræðu.

Það kemur einmitt fram í tilskipuninni sjálfri, sem er auðvitað athyglisvert, áhersla á það að vatn er ekki eins og hver önnur verslunarvara, heldur arfleifð sem ber að vernda, standa vörð um og fara með sem slíka. Síðan kemur fram að tilgangur þessarar tilskipunar er að koma í veg fyrir, eins og segir, frekari afturför og vernda og bæta ástand vatna- og vistkerfa, stuðla að sjálfbærri notkun vatns, eins og hér segir, og miðla aukinni vernd og umbótum á vatnsumhverfi, tryggja að dregið sé jafnt og þétt úr mengun grunnvatns og stuðla að því að milda áhrif af völdum flóða og þurrka. Aðalatriðið er að þetta er verndartilskipun sem er fyrst og fremst ætlað að ná til vatnsverndar og tryggja gæði vatns. Þetta er kannski ekki hefðbundin náttúruverndartilskipun, heldur lýtur hún fyrst og fremst að vatnsgæðunum og aðgangi fólks að nægu og góðu neysluvatni.

Það er hins vegar alveg rétt að ýmislegt sem varðar náttúruvernd er ekki í EES-samningnum þó að hinu sé ekki að leyna að sjálfsagt er stór hluti af þeirri umhverfislöggjöf sem við búum við í dag sótt inn í Evrópusambandsréttinn. Við höfum auðvitað haft af því heilmikinn ávinning á sviði náttúruverndar og umhverfismála.

Ég get ekki svarað fyrir álitamál sem kom upp í viðræðum um tilskipunina og yfirlýsingu frá fulltrúa Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni en mun sjá til þess, eins og ég sagði, að þau svör berist.

Eins varðandi starfshópinn um innleiðingu, mér er ekki kunnugt um hverjir sitja í þeim starfshóp en mun sjá til þess að þau svör berist líka.

Virðulegur forseti. Ég held að hér sé á ferðinni mikilvægt mál sem nauðsynlegt sé að leiða í íslenskan rétt og það sé þá kostur að gildistöku vatnalaganna hefur verið frestað þannig að hlutirnir séu núna í þeirri réttu röð að fyrst komi vatnatilskipunin og svo íslensk vatnalög.