135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[17:18]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef áhyggjur af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ætlast til að ríkisstjórnin sjái til þess að fallið verði frá frekari virkjunum í Þjórsá. Fram kom í ræðu hv. þingmanns að hægt væri að beita eignarhaldi í Landsvirkjun, sem er sem kunnugt er í eigu okkar allra. Mér finnst ekki gaman að heyra alltaf talað um að Landsvirkjun sé á bandi gróðahyggjumanna og þar fari menn með offorsi og frekju. Ég held að það sé hægara sagt en gert að koma þessu fram eins og hv. þingmaður leggur til.

Búið er að gera ákveðna samninga. Landsvirkjun hefur verið falið ákveðið hlutverk. Alþingi hefur sett menn til að stýra fyrirtækinu. Ætlar hv. þingmaður að leggja til að sagt verði við stjórnarmenn að þeir eigi bara að hætta við þetta? Hvernig á það að gerast? Ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig það á að ganga eftir. Mér þætti áhugavert að heyra hvernig hv. þingmaður hugsar sér það.

Ég vil ítreka að mér finnst þetta vera önnur umræða en sú sem er í hina röndina í tillögunni sem snýr að friðun Þjórsárvera. Mér finnst það önnur umræða og dálítið óþægilegt og til ruglings fallið að setja þetta svona saman. Virkjanirnar í Neðri-Þjórsá eru allt annað mál en Norðlingaölduveita.