135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

48. mál
[18:00]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tímarnir breytast og mennirnir með. Látið hefur verið að því liggja að það sé til vansa fyrir Einar Benediktsson skáld að hann hafi viljað virkja Gullfoss. Einar Benediktsson hefði ugglaust ekki í dag staðið fyrir því að virkja Gullfoss. Ugglaust var Einar Benediktsson í þeirri stöðu að meta það að aflið í landinu, aflið í fallvötnunum, gæti fært fátæka þjóð úr fjötrum inn í bjartari framtíð. Það hlýtur að hafa verið sjónarmiðið hjá hinu ástkæra skáldi Íslendinga og engin ástæða til að gera lítið úr því.

Sjónarmiðin hafa breyst og ég er sammála því að það var heppilegt að Gullfoss var ekki virkjaður, það er engin spurning, en það þarf ekki að orða það á þann veg að „honum hefði ekki orðið kápan úr klæðinu“. Það er slúður miðað við þann tíðaranda sem þá var á Íslandi, allt önnur sjónarmið voru uppi en nú. Það er rétt að hafa í huga, án þess að taka tillit til ákveðinna staða, að ef við Íslendingar ætlum að búa í þessu landi okkar þurfum við að nýta aflið í því, nýta auðinn, nýta möguleikana hvort sem það er til lands eða sjávar, hvort sem það er til að ná fiskinum úr sjónum eða orkunni úr landinu á skynsamlegan hátt. Gerð er grýla úr því að álver sé eitthvert skrímsli en álver er bara verkefni til skamms tíma. Álver koma og fara eins og fólk en það er innlegg eins og bankaeign að eiga orkuver, það er inneign þjóðarinnar til framtíðar, það er allt annað mál og ekki ástæða til að rugla því saman.