135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

eignarhald á jörðum.

152. mál
[13:47]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er prýðileg umræða og mikilvæg. Ég tek undir með hæstv. iðnaðarráðherra. Umræðan var allt önnur fyrir nokkrum árum, um fátækt bænda og verðlausar jarðir. Þróunin hefur fyrst og fremst snúist við af því að sveitin er nærri hjarta hvers manns. Margir hafa viljað eignast bæði jarðir og sumarhús í byggðunum og það er fagnaðarefni.

Það má skipta þessu í tvennt. Þróunin í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu er á þann veg að búin verða færri og stærri. Það eru náttúrlega mjög margir, bæði auðmenn og alþýðumenn, að kaupa jarðir og setjast þar að og borga sín gjöld og það er fagnaðarefni. Hitt er svo áhyggjuefni, sem hefur komið fram í umræðunni, og það er söfnunaráráttan. Það er að ná í kippum og kaupa upp jarðir og ef þær eru lagðar í eyði þá er það hættuleg þróun og ber að fara yfir hana.

Svo er það sá þáttur sem snýr að auðlindajörðunum, jarðir með laxveiðiám hafa t.d. verið sterkar ábýlisjarðir kynslóð fram af kynslóð. En það er mikilvægt (Forseti hringir.) fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra, eins og hann hefur lýst yfir, að fara áfram yfir þessi mál og fylgjast með stöðunni og þróun mála.